Nea Demokratia, gamli valdaflokkurinn í Grikklandi, heldur landsfund sinn núna um helgina. Flokknum var sparkað frá völdum síðastliðið haust og kom þá brátt í ljós að Grikkland var svo gott sem gjaldþrota.
Myndir af fundinum birtast í sjónvarpinu. Umgjörðin öll er mjög glæsileg, litirnir eru bláir og gráir, það er þekkt að sú litasamsetning vekur traust.
Formaður flokksins Antonis Samaras, stígur í pontu, og flytur mikla ræðu. Svo er klappað fyrir Kostas Karamanlis, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni flokksins – sem öðrum fremur á heiðurinn af því að hafa sett landið á hausinn. Það sjást myndir af honum brosandi út að eyrum.
Alveg eins og ekkert hafi í skorist.