Það er merkilegt að koma til Þýskalands eftir að hafa verið í Rússlandi.
Í Rússlandi finnst manni vera óreiða á öllu. Lögregla situr fyrir fólki til að hafa af því peninga, fólk úr forréttindastétt ekur á ofurhraða á limósínum um göturnar, ef maður sest inn á veitingahús er maður í óvissu um hvernig reikningurinn verður; það er einhvers konar misgengi á öllum hlutum. Rússland er því miður ekki réttarríki.
Í Þýskalandi er allt í röð og reglu. Maður veit nákvæmlega hvað maður fær fyrir peningana, allt er á sínum stað. Berlín er sérlega þægileg borg að dvelja í. Manni finnst maður vera einstaklega öruggur hérna. Hér er stöðugt stjórnarfar og velferð og efnahagurinn er óvíða traustari.
Þegar hugsað er til sögu Þýskalands er merkilegt að sjá hversu lýðræðið er sterkt í landinu og þjóðfélagsumræðan er gagnrýnin en á sama tíma oft merkilega sanngjörn.. Stjórnarskrá Þýskalands er reyndar eitt merkasta plagg sinnar tegundar.
Rússland er spennandi og afar heillandi, en Þýskaland er eitt mesta fyrirmyndarland sem hægt er að hugsa sér.