Valur Gunnarsson

Valur Gunnarsson trúir því að Ísland geti auðveldlega fullnægt þörfum allra. En ekki græðgi sumra.
Valur Gunnarsson

Sikiley norðursins

None
Senn fer í hönd mikill tími hreinsunar í íslenskum stjórnmálum og viðskiptum, nokkurskonar siðbót hin seinni sem lengi hefur verið þörf á. Vonandi verður íslenskt stjórnmála og efnahagslíf heilbrigðara fyrir vikið. En slíkt er því miður ekki alltaf reyndin.

Á 10. áratugnum kom upp runa spillingarmála á Ítalíu. Vissulega hafði mörgum lengi grunað að ekki væri allt með feldu í ítölsku stjórnmálalífi. Eigi að síður var það áfall fyrir fólk að sjá hversu langt spillingin náði. Það kom í ljós að 100 milljónir dollara höfðu horfið í vasa leiðtoga ríkisstjórnarflokkana og tveir fyrrum forsætisráðherrar voru sakfelldir. Annar fyrrum forsætisráðherra var ákærður fyrir að hafa  tengsl við mafíuna. Forkólfar viðskiptalífsins, svo sem yfirmenn Fiat og jafnvel tískukóngarnir sættu ákærum.

Margir hlutir sem löngum höfðu verið tekið sem sjálfgefnir þóttu ekki lengur í lagi. Sikileyjarbúar höfðu löngum tekið mafíunni sem gefnum hlut, en morð á tveimur dómurum árið 1992 áttu stóran þátt í að snúa almenningsálitinu gegn henni. Stjórnmálaflokkarnir riðluðust einnig. Kristilegir demókratar, sem allt síðan í Seinni heimsstyrjöld höfðu verið ráðandi afl, misstu tangarhald sitt á ítölskum stjórnmálum.

Skítugur bransi

Í fyrsta sinn frá stríðslokum komust vinstrimenn til valda. Reynt var að endurbæta velferðarkerfið jafnframt sem reynt var eftir bestu getu að uppræta spillinguna. Svo virtist sem allt horfði til betri vegar. En þá gerðist eitthvað undarlegt. Fjölmiðlakóngurinn Berlusconi, sem átti svo til allar „frjálsar“ sjónvarpsstöðvar landsins og hafði lengi legið undir grun um spillingu, kosinn forseti. Síðan hefur hann tvisvar aftur, með hléum, orðið forsætisráðherra. Svo virðist sem Ítalir hafi einfaldlega gefist upp á stjórnmálum. Í svo spilltu samfélagi skipti ekki máli þótt að þeir spilltustu færu með völd.

Ítalskir málshættir eins og „stjórnmál eru aðeins góð fyrir stjórnmálamenn,“ „lög eru sett og leið í kringum þau er fundinn“ eða jafnvel „La politica é una cosa sporca“ (stjórnmál eru skítugur bransi), lýsa þessu hugarfari best. Suður-Ítalía er eitt fátækasta og jafnframt spilltasta hérað Vestur-Evrópu, en allar tilraunir til umbóta hafa runnið út í sandinn og svo virðist sem menn hafi gefist upp á að reyna.

Ítölsk verktakafyrirtæki hafa löngum verið þekkt fyrir að eiga auðvelt með að fá samninga í sumum þriðjaheimsríkjum. Meðan Norður-Evrópsk fyrirtæki eiga stundum erfitt með að aðlagast umhverfi þar sem allt gengur út á hver þekkir hvern og að greiði kemur í greiða stað, ganga Ítalir inn eins og þeir séu heima hjá sér. Það er heldur ekki að undra að það var ítalskt fyrirtæki, Impregilo, sem að fékk samningin um Kárahnjúkavirkjun.

Suður-Ítalía og Ísland

Það kemur heldur ekki á óvart að á Evrópuopnu ágústblaðs tímaritsins Economist skuli vera tvær greinar um Ítalíu og ein um Ísland. Í annarri greininni um Ítalíu er sagt frá því að nýlega hafi komið í ljós að tveir þriðju þeirra fjármuna sem ætlaðir voru til uppbyggingar Suður-Ítalíu hafi horfið í Róm til þess að fela fjárlagahallann, en Ítalía er nú, á eftir Íslandi og Japan, skuldugasta land OECD. Á meðan heldur fólk áfram að flytja frá Suður-Ítalíu, sérstaklega þeir sem eru ungir og menntaðir. Hin grein blaðsins fjallar um það hvort lögreglan og mafían séu í raun óvinir.

Talað er við Alessandro Laterza, sem er yfirmaður samtaka atvinnurekenda á Suður-Ítalíu. Segir hann að ekki aðeins hafi ímynd Suður-Ítalíu beðið hnekki alþjóðlega, heldur hafi Suður-Ítalir sjálfir misst sjálfsálitið. Ef til vill er þetta ein helsta ástæðan fyrir því hvað uppbyggingin gengur hægt, fólkið hefur misst trúna á sitt eigið samfélag.

Þriðja grein opnunnar fjallar síðan um Icesave málið. Segir þar að ef Íslendingar ná ekki sáttum gæti það komið í veg fyrir að þeir nái aftur hinum miklu lífsgæðum sem hafa þótt öfundsverðir hingað til. Það skiptir miklu að ná sáttum við umheiminn. En mestu máli skiptir að Íslendingar láti stjórnmál sig varða, og reyni að minnsta kosti að finna skásta kostinn þó allir virðist slæmir. Það versta sem getur gerst er að fólk álykti sem svo að bransinn sé það skítugur að hann skipti ekki máli. Því allt skiptir þetta á endanum máli.     

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.