fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Glódís náði botninum þegar hún ákvað að hætta að borða og drekka: „Mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 17. september 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Glódís Ingólfsdóttir er 23 ára og tveggja barna móðir. Hún á tvær dætur, Sóllilju sem er 4 ára, og Maísól sem er 2 ára. Glódís er að hefja sitt fimmta og síðasta ár í lögfræði við Háskólann á Akureyri og á hún Axelsbakarí á Akureyri ásamt unnusta sínum, Sigfúsi, og foreldrum hans.

Hún er einnig menntaður einkaþjálfari og hefur mikinn áhuga á hreyfingu og mataræði. Jákvæð líkamsímynd er málefni sem Glódísi er mjög annt um, en hún glímdi við mjög alvarlega átröskun á unglingsárunum.

Glódís opnar sig um átröskunina í einlægum pistli á Mæður.com. Hún segir að þó það séu mörg ár síðan hún hafi náð bata mun sjúkdómurinn fylgja henni alla ævi.

*TW – Trigger Warning: Efni greinarinnar snýr að lystarstoli, bæði er myndefni og lýsingar.*

Alltaf heillast að öfgum

Glódís lýsir sér sjálfri sem frekar öfgakenndri manneskju.

„Ég er allt eða ekkert týpa. Ég annaðhvort legg mig alla fram eða bara ekki neitt,“ segir hún.

Hún segir þetta viðhorf hafa einkennt unglingsár hennar og þegar hún byrjaði í framhaldsskóla og flutti að heiman tók við tímabil þar sem hún hreyfði sig ekkert og hugsaði ekkert um mataræðið.

„Mér leið illa andlega án þess að vita af hverju. Í staðinn fyrir að vinna í því þá deyfði ég vanlíðanin með sukk fæði og áfengi. Ég veit það núna að ég glímdi við þunglyndi á þessum tíma og hefði þurft viðeigandi aðstoð,“ segir Glódís í pistlinum.

„Eftir heilt ár af sukki og djammi fann ég loksins löngun í að taka mig á, en því miður ekki andlega heldur bara líkamlega.“

Glódís tók mataræðið alveg í gegn og byrjaði að stunda líkamsrækt af kappi. Fljótlega fór hún að sjá árangur og það hvatti hana til að halda áfram.

„Hér var ég farin að sjá mikinn árangur og þyrsti í enn meira.“

Háð tilfinningunni að léttast

„Ég æfði á hverjum einasta degi, oft tvisvar á dag, og var fljótlega komin á mjög strangt mataræði. Kílóin flugu af mér en þegar ég var komin í kjörþyngd þá gat ég ekki hætt. Ég var orðin háð tilfinningunni sem fylgir því að léttast og grennast,“ segir Glódís.

„Það veitti mér svo mikla vellíðan. Þannig ég hélt áfram að æfa og fór að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu. Ég var á endanum hætt að hafa gaman af því að mæta í ræktina og þurfti að pína mig á æfingu. Ég var alltaf þreytt og alltaf svöng, mér var ískalt og þurfti að æfa í þykkri hettupeysu. Sama hvað ég hamaðist mikið þá svitnaði ég ekki einum einasta dropa, roðnaði varla í framan. Ég varð máttlausari og átti erfiðara með að lyfta sömu þyngdum og ég var vön að taka. Öll fötin mín voru orðin allt of stór og hárið fór að hrynja af mér. Mér datt samt ekki í hug að það væri eitthvað að, ég var bara ákveðin í að detta ekki aftur í sama gamla farið, ætlaði ekki að skemma fyrir mér og þyngjast aftur.“

Glódís lifði á eggjahvítum og kjúklingabringum og reyndi að komast upp með að borða eins lítið og hún mögulega gat. Ef hún borðaði eitthvað sem hún „mátti ekki“ þá refsaði hún sér með því að vera helmingi lengur á æfingu.

„Ég var alltaf í úlpu inni, sat í skólanum í dúnúlpu með hettuna á hausnum og borðaði eggjahvítur úr plastboxi. Ég var búin að einangra mig félagslega því það komst ekkert að nema að æfa og telja hitaeiningar. Ég eyddi kvöldunum í að elda hafragraut og vigta í plastbox, steikja eggjahvítur og skera niður gulrætur til að hafa í nesti. Ég svaf í ullarsokkum, joggingbuxum og hettupeysu, og átti erfitt með að sofna á kvöldin því ég skalf úr kulda, þurfti að nudda á mér tærnar og fingurna til að geta sofnað,“ segir Glódís.

„Ég var orðin svo skelfilega veik í hausnum en ég sá það ekki sjálf og hlustaði ekki á fólkið í kringum mig sem reyndi að segja mér það. Mér fannst ég vera ein og að allir væru á móti mér. Allir vildu láta mig fitna, og ég ætlaði sko ekki að láta það eftir þeim.“

„Ég hef aldrei verið jafn létt og á þessum myndum, en ég hef aldrei verið jafn óhamingjusöm og það er eitthvað sem ég þarf reglulega að minna mig sjálfa á.“
Glódís þá og nú.

Náði botninum

Glódís segir að hún hafi náð botninum þegar hún ákvað að hætta alfarið að borða og drekka. Hún áttaði sig á því að hún væri grennst á morgnanna áður en hún væri búin að innbyrða nokkuð.

„Ég var orðin svo andlega veik að mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja. Ég vissi alveg að það væri ekki hægt að lifa án þess að borða og drekka, en ég tók samt meðvitaða ákvörðun um að hætta að borða og drekka. Þetta var hvort sem er ekkert líf hugsaði ég á þessum tímapunkti,“ segir hún.

Glódís sagði fjölskyldu sinni að henni væri óglatt og að hún væri örugglega að verða veik.

„Svo lá ég upp í rúmi undir sæng og horfði á veginn. Ég vildi ekki fara neitt eða gera neitt. Eftir nokkra daga af þessu ástandi fór mamma með mig á spítalann. Þá var komin svo mikil ammoníakslykt af mér að allt herbergið angaði. Ég gat varla staðið í lappirnar, ég titraði og skalf og það ætlaði að líða yfir mig,“ segir Glódís.

Þegar á sjúkrahúsið var komið fékk Glódís næringu í æð og viðtal við lækni. Hún var greind með lystarstol og þunglyndi og fékk í kjölfarið lyf sem hjálpuðu henni gríðarlega.

„Þegar þau byrjuðu að virka fékk ég líf mitt til baka. Ég öðlaðist aftur viljann til að lifa og aðrir hlutir en holdafarið mitt fóru að skipta máli.“

Glódís ófrísk af yngri dóttur sinni.

Leiðin til baka ekki bein

Glódís segir að leiðin til baka hafi ekki verið bein. „Ég hætti ekki bara allt í einu að vera með anorexíu. En ég vann í sjálfri mér og með mikilli vinnu tókst mér að sigrast á þessum hræðilega sjúkdómi sem anorexía er,“ segir hún og bætir við að sjúkdómurinn muni þó fylgja henni alla ævi.

„Þegar ég var ólétt af eldri dóttur minni fannst mér erfitt að þyngjast og sjá líkama minn breytast […] Það var ekki fyrr en ég gekk með yngri dóttur mína sem mér fór að þykja vænt um líkama minn og lærði að meta hversu mikils virði það er að fá að ganga með barn, og hvað líkaminn er magnaður,“ segir Glódís.

Hún segist þurfa að passa sig að hugsa hvorki of mikið né of lítið um hreyfingu og næringu. Hún hugsar um mat sem næringu fyrir líkamann og sálina og hreyfir sig til að líða vel, ekki til að breyta útliti sínu.

„Í dag eru sex ár síðan ég var greind með lystarstol og þetta er ennþá barátta, þó ég hafi náð mjög langt. Ég þarf að minna mig á það á hverjum einasta degi að hamingja er ekki metin í holdafari.“

Þú getur lesið allan pistillinn í heild sinni á Mæður.com. Glódís fer yfir nokkur ráð sem hjálpuðu henni í baráttunni við átröskunina og hverjum hún fylgir á samfélagsmiðlum til að fá hvatningu.

Þú getur einnig fylgst með Glódísi á Instagram @glodis95

Ef grunur er um átröskun getur verið gagnlegt að byrja á að leita á heilsugæsluna. Þar getur heimilislæknir metið vandann og sent tilvísun í átröskunarteymið með samþykki sjúklings. Einnig er tekið við tilvísunum frá fagfólki innan og utan LSH, skólum og öðrum fagaðilum. Fólk getur einnig haft sjálft samband við átröskunarteymið með því að senda tölvupóst á atroskun@landspitali.is. Í kjölfarið hefur starfsmaður átröskunarteymis samband símleiðis og metur þörf fyrir beiðni um meðferð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Jökull fékk á baukinn í beinni fyrir tilraunir sínar í vetur – „Ekki gera það fyrir framan sjónvarpsvélar“

Jökull fékk á baukinn í beinni fyrir tilraunir sínar í vetur – „Ekki gera það fyrir framan sjónvarpsvélar“
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Adam ákærður fyrir stórfelld brot

Adam ákærður fyrir stórfelld brot
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

85 ára kona skaut innbrotsþjóf til bana

85 ára kona skaut innbrotsþjóf til bana

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.