fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Á aðfangadag fóru tæplega 200 hlutir af heimili Ágústu – „Auðvitað var þetta galið og gat ekki gengið“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 14. desember 2019 15:00

Fjölskyldan í hellunum i Nerja á Spáni en þar dvöldu þau í 5 vikur í byrjun árs 2018.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágústa Margrét Arnardóttir, hönnuður og fyrrverandi sjómaður, hefur búið á Djúpavogi síðastliðna tvo áratugi þar sem hún rekur heimili með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni, en saman eiga þau fimm börn. Ágústa sótti fyrst sjóinn fjórtán ára, þá á humartrolli en færði sig svo yfir á frystitogara fimmtán ára gömul. Eftir tólf ára farsælan feril sagði hún starfi sínu lausu og setti á stofn fyrirtækið Arfleið sem sérhæfði sig í hönnun og framleiðslu á töskum, fylgihlutum og fatnaði úr fiskroði og lamba- og hreindýraskinni.

Börnin fimm fæddust með stuttu millibili, fyrstu þrjú á þremur árum og síðari tvö bættust í hópinn fimm og sex árum síðar. Hún segir lífið hafa einkennst af mikilli þreytu og streitu en sjö ár eru nú liðin síðan fjölskyldan gerði allsherjar breytingu á lifnaðarháttum sínum. „Ég hélt alltaf að foreldrahlutverkið og heimilishaldið kæmi af sjálfu sér. Mitt plan var að vera skemmtileg, gera sniðuga hluti með börnunum, vera sanngjörn og þolinmóð mamma og þá yrðu börnin stillt og allt yrði frábært. En það bara gerðist ekki. Börnin fóru að sýna alls konar „óæskilega“ hegðun og þá fór ég að sýna sams konar hegðun á móti. Heimilislífið einkenndist oft – alls ekki alltaf –  af streitu, þreytu og pirringi. Og skyldi engan undra. Samhliða því að hrúga niður börnum og reka eigið fyrirtæki, þar sem ég sá um allt sem viðkom rekstrinum, sá ég oftast ein um heimilið og börnin. Á þessum tíma starfaði maðurinn minn sem sjómaður og í frítíma sínum kafaði hann undir bilaða báta við allt Austurland ásamt því að vera í slökkviliðinu. Ég sá það ekki þá en auðvitað var þetta galið og gat ekki gengið. Mér fannst við bara vera að lifa venjulegu lífi við að reyna að koma yfir okkur heimili, föstum tekjum og öryggi. Líf okkar einkenndist af ójafnvægi, togstreitu, þreytu og streitu sem oft birtist sem biturleik, pirringur og reiði sem dregur alvarlegan dilk á eftir sér. Streita hefur áhrif á alla í kringum okkur og sérstaklega börnin. Samfélagið er á hættulegum stað hvað varðar hraða, kröfur og áreiti. Ég krassaði fyrir sjö árum sem varð til þess að ég VARÐ að hlúa betur að sjálfri mér.“

Desember erfiður mánuður
Þrjú ár eru nú síðan önnur stór þáttaskil urðu í lífi fjölskyldunnar og áttaði Ágústa sig þá endanlega á mikilvægi þess að hlúa betur að fólkinu sínu og nærumhverfi. „Ég ákvað að endurhugsa lífið. Fyrsta skrefið var að taka mér tíma og finna mín raunverulegu lífsgildi. Ég vildi finna skemmtilegu, sanngjörnu og þolinmóðu mömmuna og manneskjuna sem ég vil vera. Manneskjuna sem heldur kúlinu í stormum lífsins. En það er mér ofsalega erfitt því ég á það til að frjósa af áhyggjum ef ég er ekki í „varðturninum“ mínum, með fulla meðvitund. Þetta gerist sérstaklega þegar of mörg verk hanga yfir mér og þess vegna er desember erfiður mánuður.“

Þrautabraut í stofunni. Heimilið er allt „lifandi“ og breytist mjög reglulega í þeim tilgangi að hafa gaman og gera eitthvað saman.
Inni-sköpunarsvæði.
Margt spennandi hægt að brasa inni.

Ein af þeim fjölmörgu breytingum sem Ágústa einsetti sér að gera, í von um að fyrirbyggja þetta hugarástand, var að einfalda líf hennar sem og fjölskyldunnar allrar. „Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að „aftengjast“ eignum mínum og losa okkur við föt, leikföng, húsbúnað og alls konar. Þetta auðveldaði allt utanumhald og veitti mér frelsi. Ég skipulagði heimilið svo það hentaði okkur betur. Við erum ekki með „smartasta“ heimilið en það er bæði þægilegt og gott, sem skiptir meira máli. Ég einfaldaði líka matargerð. Hætti að eiga fullt af alls konar kryddi og í dag borðum mikið hrátt eins og grænmeti og ávexti eða foreldað eins og slátur, skinku, þurrkað kjöt, harðfisk, hnetur og þess háttar. Þetta minnkar eldamennsku og uppvask. Ég fór að huga að innkaupum út frá umbúðum, því pappakassar, eggjabakkar, plastumbúðir og skyrdósir eru að éta upp tíma og pláss í lífi okkar. Þetta sá ég ótrúlega vel fyrir síðustu jól, en þá fórum við í mjög óhefðbundið jóladagatal.“

Ferðast frekar en að safna eignum

Í nóvember á síðasta ári varð Ágústa vör við löngun barna sinna, sem eru á aldrinum 2, 5, 10, 11 og 13 ára, í að eignast jóladagatöl sem innihéldu ýmist leikföng eða snyrtivörur. Tilhugsunin ein og sér nægði til þess að hún fann til örmögnunar. „Já, ég bugaðist bara við tilhugsunina, einkum og sér í lagi hvað varðar kostnaðarhliðina á þessu sem og að fá mögulega 120 nýja smáhluti og tilheyrandi umbúðir inn á heimilið. Mig langar ekki að taka þátt í þessari neysluhegðun og vil ekki kenna börnunum mínum að hátíðirnar snúist um gjafir. Ég fór því í einhvern mótþróa og bað börnin mín að samþykkja og taka þátt í jóladagatali sem snerist um að láta frá okkur einn hlut á dag frekar en fá einn hlut á dag. Krakkarnir tóku að sjálfsögðu misvel í þessa tegund jóladagatals, en samþykktu samt. Á aðfangadag fóru því 168 hlutir út af heimilinu.

Sem betur fer áttum við smádót, kubba og töluvert af prjónadóti og garni. Að auki fengu gamlir fatapokar, sem höfðu aldrei ratað lengra en inn í geymslu, að komast í Rauða krossinn. Einstæðir sokkar fengu líka að fara sem og eldhúsáhöld sem til var fleira en tvennt af. Þetta tókst án þess að tæma húsið, langt því frá. Við losuðum okkur auðvitað ekki við það sem er okkur kærast eða það sem er í notkun. Suma dagana völdu krakkarnir eitthvað en aðra daga tók ég skurk á öllu.

Heimatilbúið Jólaskraut og gjafir.

Í ár finn ég að börnin mín eru nægjusamari, þau taka dagatölum ekki sem sjálfsögðum hlut. Það var í raun auðvelt að sannfæra þau um þetta af því að við erum með svo skýr lífsgildi. Við viljum ferðast, upplifa og skapa minningar frekar en safna eignum. Það er gríðarlega mikilvægt að vera með svona fjölskyldu-„stefnu“ og minna sig látlaust á stóru draumana því það er svo ótrúlega fljótlegt að detta í neysluruglið, sérstaklega finn ég þetta hjá eldri börnunum því áreitið í samfélaginu er svo mikið. Þau langar ekki að fá minna en hinir eða fá eitthvað hallærislegt en þau skilja þetta betur ef maður heldur lífsgildunum uppi og draumunum. Krafturinn í því að vera með skýra sýn og stefna að einhverju er öflugt tæki. Ég ætlaði mér alltaf til dæmis að ferðast með börnin mín, en svo fóru þau að verða hindrun fyrir því að við ferðuðumst, eins glórulaust og það hljómar. Þau voru bara of lítil, of mörg, of dýrt að ferðast, of mikið að gera hjá okkur foreldrunum og svo framvegis. Hindranir úti um allt, en ég gróf upp gömlu gildin og síðan í mars 2018 erum við búin að fara til 16 landa á 16 vikum í þrem ferðum.“ Hægt er að fylgjast með ferðum fjölskyldunnar hér. 

Börnin í Berlín sumarið 2018. Við minnisvarða um gyðinga sem myrtir voru í Evrópu í helförinni. Að ferðast og upplifa staði og menningu hefur kennt börnunum ótrúlega margt.
Börnin við hringleikahúsið í Pula í Króatíu sumarið 2019. Fjölskyldan safnar upplifun frekar en eignum.
Birgir í 2.000 metra hæð í Tatra-fjöllunum. Þjóðgarðar og villt náttúran stendur upp úr hjá fjölskyldunni á ferðalögum. Allt í einu voru börnin orðin hindrun í því að ferðast og upplifa. Ágústa taldi þau of lítil og of mörg, en nú eru börnin hvatningin til að upplifa sem allra mest.

Bestu minningarnar tengjast tilfinningum
Undirbúningur fyrstu ferðarinnar tók sinn toll og segir Ágústa þar hafa skipt miklu máli að gera ýmiss konar ráðstafanir. „Við fjármögnum ferðirnar meðal annars með því að leigja út húsið okkar og velja ódýr lönd. Oftast dugir sparnaðurinn í mat og uppihald hér á Íslandi fyrir flugi og gistingu erlendis því Ísland er sjúklega dýrt. Við sjáum best í þessum ferðum hvað margt hér er ófjölskylduvænt. Ég neita líka að samþykkja það sem „norm“ að 10 ára stelpur þurfi að fá förðunar- og krem-dagatöl, sem dæmi. Kannski hljóma ég leiðinlega, en líf okkar er í það minnsta mun skemmtilegra og innihaldsríkara núna og í ár verðum við með nokkrar tegundir af dagatölum. Eitt þeirra er 24 bækur sem ég keypti notaðar á nytjamarkaði og pakkaði inn. Hvern dag í desember munum við svo opna eina og lesa saman, en samtals kostuðu bækurnar 2.400 krónur. Í bunkanum eru líka uppskriftabækur, svo við getum gert bakstur að samverustund, sem og skissubækur svo það er líka hægt að lita og leika sér. Eftir jól fara svo flestar bækurnar aftur á nytjamarkaðinn.

Bókajóladagatal fjölskyldunnar.

Ég keypti líka jólasveinadagatal sem er hljóðbók í 24 köflum frá sysla.is, ég stefni því á að eiga gæðastund með manninum mínum og hlusta með honum á Að breyta fjalli eftir Stefán Jónsson. Sú bók er víst í 20 mínútna köflum og upplagt að skella því á yfir tiltekt, eldamennsku eða bara sitja saman og njóta. Það eru nefnilega þessar stundir sem verða minningar og skipta mestu máli. Sérstaklega hjá börnunum. Þau muna kannski eftir einhverjum stórum og flottum gjöfum seinna meir, en bestu minningarnar tengjast oftast andrúmsloftinu og tilfinningunum.“

Skemmtilegur matur. Börn geta mun meira í eldhúsinu en við leyfum þeim og upplagt að búa til gæðastundir þar. Það dreifir álagi og ábyrgð og býr til góðar minningar.

Mikilvægt að dreifa ábyrgð og álagi á alla
Annað markmið sem fjölskyldan einsetti sér er að stunda útivist allt árið um kring. Ágústa segir það ganga upp og ofan, en það sé gott að fá spark í rassinn á aðventunni. „Við reynum að fara sem mest með kakó eða súpu á brúsa í skógræktina, förum í leiðangra í náttúrunni, horfum á norðurljós og stjörnur, en svo förum við líka með súpupottinn út í garð og borðum heita súpu í kuldanum. Þegar ég spurði fimm ára son okkar hvað hann vildi gera í desember sagðist hann vilja fara í sund og gera snjókarla. Þetta er ekki flókið. Það þarf bara að vera samvera með óskipta athygli á núinu.

Bræðurnir Örn Þór og Birgir í fjölskyldusportinu sem þau byrjuðu að stunda fyrir tveimur árum.
Bræðurnir Birgir og Garðar Atli í „heita pottinum“ í kringum síðustu jól. Þetta eru einfaldar og eftirminnilegar stundir.
Fjölskyldan bjó til gæðasvæði í garðinum þar sem þau kveikja varðeld, borða súpu, halda afmæli, fara í stjörnuskoðun og fleira.

„Það er algeng gildra að foreldrar, sérstaklega mæður, ætli að stjórna öllu, gera gott fyrir alla, búa til skipulag og samverudagatöl og gleðja alla en gleyma sjálfri sér, verða svo vonsviknar og pirraðar ef börn, maki eða aðrir sýna ekki ofsalegt þakklæti og eru ekki alltaf í tipptopp formi til að taka þátt í öllu. Þetta er algjör óþarfi og má dreifa þessari ábyrgð og álagi á alla. Því gerði ég eitt til að létta á ábyrgðinni og álaginu á mér sjálfri; ég bað alla í fjölskyldunni að skrifa óskalista, ekki þarfalista, heldur óskalista yfir það sem væri gaman að gera. Yngri tveir fengu aðstoð við skriftirnar en komu með góðar hugmyndir. Og nú er ég komin með gagnagrunn bíómynda, þátta, bóka, mat, kökur og kræsingar, upplifun og gjafir. Þannig að nú geta þau bara eldað það sem þau vilja og það verður fljótlegt að finna bíómyndir í stað þess að rúlla fram og til baka á „vodinu“ endalaust og finna ekkert sem hentar öllum. Það skiptir líka máli að sumt hentar ekki öllum og það er allt í lagi, ég hlakka jafn mikið til að eiga gæðastund með sjálfri mér; að borða eitthvað sem mér finnst gott og horfa á eitthvað sem mér finnst skemmtilegt á meðan hinir gera sitt, eins og eiga þessar stundir með allri fjölskyldunni, eða bara makanum. Taka bara stöðuna á hverjum og einum einstaklingi og dagsformið eins og það er – ekki eins og ég sé fyrir mér eða vonaði. Það leiðir pottþétt til pirrings og vonbrigða. Það er nefnilega auðveldara að segja „slakaðu á og njóttu“ og vertu í núinu en að raunverulega gera það.“

Áhugasamir geta fylgst með Ágústu hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Villa staðfestir gleðitíðindin

Villa staðfestir gleðitíðindin
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.