fbpx
Föstudagur 20.september 2019  |
Bleikt

„Nú var ég að deyja og ákvað að skrifa dætrunum bréf – Ég var ömurlegur faðir“

Ritstjórn Bleikt
Laugardaginn 9. mars 2019 16:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef alltaf verið fíkill því ég hef alltaf unnið á milli 12 og 16 tíma á sólarhring. Ég vildi sýna að ég gæti farið alla leið. Ég fékk sífellt hærri stöður og meiri ábyrgð. Ég varð framkvæmdastjóri í banka. Ég var viss um að ég myndi verða aðalbankastjóri að lokum. Það var ekki fyrr en á dánarbeðinu sem sannleikurinn rann upp fyrir mér.

Dauðinn hefur læðst að mér í gegnum lífið. Sex sinnum hef ég verið lagður inn á sjúkrahús vegna gruns um blóðtappa í hjarta og heila. En ég hafði betur, minn tími var ekki kominn. Ekkert fékk mig til að hlusta á þessi varnaðarorð. Ekki einu sinni faðir minn sem sendi mér myndskeið nokkrum vikum áður en hann lést þar sem hann sagði að síðasta ósk hans væri að ég tæki mig saman í andlitinu og eyddi minni tíma í vinnunni. Ég hlustaði ekki. Það var ekki fyrr en ég var lagður inn í sjöunda sinn sem ég áttaði mig á stöðunni.

Ég kem úr venjulegri verkamannafjölskyldu. Faðir minn drakk bjór og reykti. Hann vann 12 til 16 klukkustundir á sólarhring. Um helgar keyrði hann leigubíl og kom heim snemma á morgnana til að sofa í nokkra tíma. Hann stritaði til að við gætum farið í sumarfrí. Ég var kallaður svarti sauðurinn í fjölskyldunni. Pabbi og stóri bróðir minn stríddu mér á mjóum handleggjum mínum.

Ég fékk mikla þörf til að sanna mig á annan hátt. Ég hugsaði með mér að ég gæti sjálfur gert ýmislegt. Þénað vel, fengið góða stöðu, orðið að einhverju. Svo ég var sá fyrsti í fjölskyldunni til að ljúka stúdentsprófi.

Ég hafði mikla þörf fyrir að vernda litlu fjölskylduna mína. Þau ættu ekki að líða neinn skort. Börnin áttu að fara í góða skóla. Eiga góð föt og réttu leikföngin. Konan mín átti að fá allt sem hún vildi. En ég sjálfur? Vann ég of mikið? Það gerði ekkert til.

Ég fékk allar mögulegar stöður sem ég mat svo mikils að ég sleppti afmælisveislum um helgar til að geta unnið til að fá enn fleiri stöður og titla. Ég vildi komast áfram, upp á við.

Á hverjum degi kom ég seinna heim en ég hafði lofað, líka eftir að ég gifti mig. Þegar við fórum að versla beið ég alltaf fyrir utan og hringdi í bankann til að kanna hvort allt gengi ekki vel.

Maður skyldi ætla að bankinn elski svona týpur eins og mig, en nei, ekki til lengdar. Vinir og félagar sögðu við mig að þetta myndi nú enda með ósköpum og að ég þyrfti að gæta mín. En ég hugsaði með mér að faðir minn hefði getað þetta.

Yfirmaður minn bað mig um að fá mér leiðbeinanda til að kenna mér að vinna minna, hann vildi hækka launin mín ef ég ynni minna. En mér fannst ég ekki vera nógu góður ef ég fengi aðstoð leiðbeinanda.

Ég hef yfirleitt ekki keyrt börnin mín í afmælisveislur en dag einn var ég að aka annarri dótturinni í veislu þegar það var eins og teygja springi bak við annað auga mitt. Ég fann til. Var verið að stinga nál í gegnum höfuðkúpuna? Ég ók út í kant. Var ég að deyja? Ég tók mig taki, kom henni í afmælið og fór aftur í vinnuna, ekki til læknis.

Tveimur vikum síðar gerðist þetta aftur þegar ég var heima. Konan mín pantaði strax tíma hjá lækni og ég fékk tíma næsta miðvikudag. Ég varð fúll. Ég vildi komast til næturlæknisins, þá gæti ég komist í vinnuna. En ég fór á miðvikudeginum. Blóðþrýstingurinn var tvöfalt hærri en hann átti að vera. Púlsinn var eins og ég hlypi maraþonhlaup allan daginn. Líkaminn var að gefa sig en ég hafði aldrei stundað neinar íþróttir.

Læknirinn sagði að ég yrði fluttur í sjúkrabíl á sjúkrahús. Ég hélt nú ekki, ég hefði drukkið sex kaffibolla um morguninn og þyrfti að fara aftur í bankann. Ég átti að fara á fund í útlöndum næsta dag. Hann hlustaði ekki á mig og hringdi á sjúkrabíl.

Ég var borinn út á börum og lagður inn á fjögurra manna stofu á næsta sjúkrahúsi. Ég var tengdur við allskonar leiðslur og tæki. Ég hélt að læknarnir væru orðnir klikkaðir, ég hafði jú lent í þessu sex sinnum áður og vissi að þetta væri ekki blóðtappi. Ég þurfti að vera á sjúkrahúsinu yfir nótt.

Um nóttina fékk einn hinna hjartastopp. Hjúkrunarfólkið barðist í klukkutíma inni á stofunni við að endurlífga hann en gafst upp að lokum. Næsta morgun fékk 18 ára strákur hjartastopp, hann var endurlífgaður á nokkrum mínútum.Síðar um daginn mældist blóðþrýstingur eins á stofunni svo lágur að hann var sendur beint á ríkissjúkrahúsið. Ég hugsaði með mér að nú væri bara ég eftir, nú kæmi maðurinn með ljáinn til að taka mig.

Ég þorði ekki að sofna, ég ætlaði að fresta dauðanum þar til ég væri búinn að hitta konuna mína og litlu dæturnar mínar tvær. Ég hafði alltaf haldið að ég gerði allt það besta fyrir fjölskyldu mína en nú rann upp fyrir mér að ég hafði aldrei verið til staðar fyrir þær. Ég hafði gjöreyðilagt líf mitt og nú þyrftu þær að alast upp föðurlausar.

Ég skammaðist mín. Ég var ekki hræddur við dauðann heldur við að svíkja fjölskylduna. Ég hafði líka svikið sjálfan mig. Ég hafði sannfært sjálfan mig um að það væri jafnvægi í lífi mínu. Ég safnaði Andrésar Andar blöðum og glasamottum. En ég hafði ekki lesið Andrés blað í átta ár. Ég skammaðist mín, ég var einskis virði.

En ég hafði haldið að ég væri einhvers virði. Ég hafði gefið stelpunum öll nýjustu leikföngin en ég lék aldrei við þær. Ég hafði keypt sumarbústað handa okkur en þegar við vorum í sumarbústaðnum eyðilagði ég allt.

Allir vildu fara í lautarferð í góða veðrinu en ég var tikkandi tímasprengja því skapið var svo mikið. Það nægði að ein teskeið lægi vitlausu megin við diskinn, þá sprakk ég. Ég öskraði, ég lamdi í borðið, ég fór inn í herbergi. Síðan kom ég fram aftur, sparkaði í stól og aflýsti lautarferðinni. Ég var ömurlegur faðir. Líf mitt var langt frá því að vera fullkomið. Þegar ég kom heim úr vinnunni settist ég strax við tölvuna og nú lá ég á sjúkrahúsi og var að deyja.

Ég ákvað að skrifa dætrunum bréf. Ég sagði þeim að mér væri alveg sama hvaða starf þær fengju sér í framtíðinni, bara að þær væru ánægðar með það. Að þær myndu eiga gott líf og ekki verða eins og ég að eyða lífinu í kolranga hluti.

Nú var ég búinn að halda mér vakandi í 30 tíma. Það er erfitt að vita að maður er að fara að deyja. Eftir 41 klukkustunda baráttu gafst ég upp og sofnaði. Síðan vaknaði ég! Ég varð mjög glaður og sagði við sjálfan mig: „Nú breytir þú lífi þínu. Þú gætir að heilsunni. Við ætlum að hafa það gott og við ætlum að leika okkur.“

Ég fór í nokkurra vikna veikindafrí og byrjaði svo aftur að vinna. Fljótlega var allt komið í sama gamla farið, ég sleppti morgunmatnum og vann 16 tíma á dag. Ég borðaði ekki hádegismat því ég var á fundum og því greip ég feita hamborgara og pizzur á heimleiðinni.

Vinnufélagar mínir segja að ég sé best gifti maðurinn í Danmörku því Marianne hefur sætt sig við allt í svo mörg ár. Hvað hefði ég gert ef hún hefði ekki dregið mig með á fyrirlestur kvöld eitt í bankanum? Ég ætlaði að undirbúa mig fyrir vinnuna næsta dag þetta kvöld en ég fór með henni. Ég settist á aftasta bekk til að geta læðst út. Fyrirlesarinn var frábær og sagði hvernig maður getur snúið dæminu við. Þegar ég kom heim settist ég niður og sendi honum tölvupóst, ég vildi breyta lífi mínu.

Ég hata raunveruleikaþætt en þegar fyrirlesarinn spurði mig hvort ég vildi vera með í einum í Danska ríkissjónvarpi hugsaði ég með mér að það myndi ég gera ef ég gæti lengt líf mitt um eitt til tvö ár með því. Ég átti að fara í fimm vikna göngu um Píreneafjöllin með sjö öðrum sjúklingum. Áður en lagt var af stað rannsökuðu 11 læknar mig. Niðurstaðan var hryllileg. Líkaminn minn var eins og líkami 61 árs manns en ég var bara 45 ára.

Í fjöllunum gerðist það síðan. Það kom að ofan og hitti mig. Það var ekkert ljós sem fylgdi því, engir geislar eða eitthvað trúarlegt við það. Skyndilega áttaði ég mig bara á hlutunum. Ég reif bréfin til stúlknanna. Ég gerði samning við sjálfan mig um að fyrst ég væri kominn hingað gæti ég alveg tekið mig saman í andlitinu og lifað af. Ég byrjaði að drekka eitt glas af safa úr rauðbeðum, engiferi, sítrónu og eplum daglega. Það hafði ég aldrei gert áður.

En skyndilega elskaði ég þetta. Sex mánuðum síðar svaf ég átta tíma á sólarhring, fór í göngutúr daglega og borðaði almennilega mat og nú segja læknarnir að líkami minn sé eins og hjá 41 árs gömlum manni. Þetta er ótrúlegt.

Í bankanum mínum sé ég svo marga sem eru eins og ég var og þeir eru víða. Ég vil bara segja við þá alla: Hættið þessu. En ég óttast að þeir haldi áfram.

Í dag er mikilvægasta markmið mitt í lífinu að vera góður faðir. Stelpurnar mínar spila strumpaspil og ég passa strumpabæinn fyrir Idu. Hvernig hámarkar maður afrakstur strumpanna? Með því að setja niður kartöflur? Eða með því að rækta ber? Fyrir tveimur árum var strumpabærinn það minnst mikilvægasta í lífi mínu. En þegar ég þarf að ferðast núna þá sit ég í flugvélinni og spila strumpaspil frekar en að lesa viðskiptablöð. Ég veit að fólk hugsar með sér: Hvað er með þennan klikkaða 47 ára mann í svörtum jakkafötum sem leikur sér með strumpa? Mig langar að standa upp og segja við alla í flugvélinni að ég geri það sem mig langar til, ekki það sem aðrir vænta af mér.“

Þessi frásögn birtist í Jótlands-Póstinum. Þar sagði Martin Andersen sögu sína en hann hefur starfað hjá Nordea bankanum síðan 1987 og gengt ýmsum ábyrgðarstöðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Nýtt „heimskulegt“ samfélagsmiðlatrend meðal unglinga er að gera allt brjálað

Nýtt „heimskulegt“ samfélagsmiðlatrend meðal unglinga er að gera allt brjálað
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Stjörnuspá vikunnar: Þú lærir ný trix í svefnherberginu og lendur þínar hafa sjaldan verið jafn sjóðandi heitar

Stjörnuspá vikunnar: Þú lærir ný trix í svefnherberginu og lendur þínar hafa sjaldan verið jafn sjóðandi heitar

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.