fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Sannleikurinn um samband Bradley Cooper og Lady Gaga: „Ég elska hana svo mikið“ – „Hann lét mér líða eins og ég væri frjáls“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 26. febrúar 2019 21:30

Afskaplega náin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er fátt jafn mikið á milli tannanna á fólki þessa dagana en samband leikarans Bradley Cooper og söngkonunnar Lady Gaga, sem áttu stórleik saman í kvikmyndinni A Star is Born. Halda margir aðdáendur þeirra að þau séu laumulega ástfangin, en sá orðrómur varð enn háværari eftir að þau sungu saman lagið Shallow, úr fyrrnefndri bíómynd, á nýafstaðinni Óskarsverðlaunahátíð.

Því er vert að líta yfir hvernig samband Bradley og Lafðinnar, sem heitir réttu nafni Stefani Joanne Angelina Germanotta, hefur þróast síðan ljóst var að þau myndu leika saman í myndinni sem hefur slegið rækilega í gegn.

Saman í A Star is Born.

Hef ég þekkt þig allt mitt líf?

Það var árið 2016 sem Bradley var móður sinni, Gloriu Campano, í teiti heima hjá milljarðamæringnum Sean Parker. Lady Gaga var einnig í teitinu og tróð óvænt upp fyrir gesti.

„Hún söng La Vie en Rose og ég var yfir mig hrifinn,“ sagði Bradley í viðtali við W magazine. Næsta morgun hringdi hann í söngkonuna og vildi fá hana á fund til sín vegna þess að hann var að leita eftir mótleikkonu í A Star is Born.

„Hún gekk niður stigann og við fórum út á pall og ég sá augun hennar og í sannleika sagt small allt saman. Ég hugsaði: Vá,“ sagði hann í viðtali við Vogue um fundinn með Lafðinni. Hún fann einnig fyrir tengingu strax á fyrsta fundi.

„Um leið og ég sá hann hugsaði ég: Hef ég þekkt þig allt mitt líf? Við náðum tengingu strax og skildum hvort annað,“ sagði Lady Gaga í viðtali við Vogue. Fundurinn fór fram heima hjá henni og eldaði hún kjötbollur og spaghettí fyrir leikarann. Þessi matur hafði mikla þýðingu fyrir Bradley.

Hönd í hönd í Feneyjum.

„Ég elska að borða. Og það myndaði sterk bönd okkar á milli að við vorum bæði úr ítölskum/amerískum fjölskyldum frá austurströnd Bandaríkjanna. Þannig að það var samhljómur með uppvexti okkar,“ sagði hann á blaðamannafundi á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Réð hana á staðnum

„Ég bjó til hádegismat og við spjölluðum. Síðan sagði hann: Mig langar að vita hvort við getum sungið saman,“ sagði Lafðin í viðtali við Vogue og bætti við að fyrstu viðbrögð hennar hafi verið að hlæja. „Ég spurði hana ef hún kynni lagið The Midnight Special því ég hafði lagt það á minnið og hún sagði nei,“ sagði hann í viðtali við W. Lady Gaga lét það ekki á sig fá, hlóð niður nótunum fyrir lagið og sló til.

„Ég settist við píanóið og byrjaði að spila. Síðan byrjaði Bradley að syngja og ég stoppaði og sagði: Guð minn góður, Bradley, þú ert með æðislega rödd. Hann syngur úr kjarnanum. Ég vissi strax að þessi náungi gæti leikið rokkstjörnu. Og ég held að það séu fáir í Hollywood sem geta það. Þetta var stundin sem ég vissi að þessi kvikmynd gæti orðið eitthvað virkilega sérstakt,“ sagði Lafðin við Vogue. Bradley vissi strax þarna að hann hefði fundið hina fullkomnu mótleikkonu.

„Ég vissi þetta um leið og ég hitti hana. Ég vissi auðvitað að hún væri ein besta söngkona samtímans og þegar ég hitti hana var það svo tilfinningaþrungin, djúp, opin, hlý og umhyggjusöm stund og ég hugsaði: Guð, ef við getum fangað það sem ég sé þegar ég tala við hana þá erum við í góðum málum,“ sagði Bradley við E! News á frumsýningu myndarinnar í Hollywood.

Sena úr myndinni þar sem Lafðin og Bradley syngja saman.

Gerðu samning sín á milli

Í framhaldinu gerðu Bradley og Lady Gaga samning sín á milli um að þau myndu ávallt styðja hvort annað þar sem myndin ætti eftir að reyna mikið á tilfinningalega.

„Við gerðum samning: Ég trúði á hana sem leikkonu og hún trúði á mig sem tónlistarmann,“ sagði Bradley. „Auk þess gat engin leikkona afrekað það tónlistarlega sem Stefani gerði í þá 42 daga sem við vorum í tökum. Ég þurfti plútóníum. Og plútóníumið í A Star is Born er rödd Stefani.“

Lafðinni þykir vænt um þessi orð því henni fannst óþægilegt í fyrstu að losa sig við farða og dramatíska búninga og breyta sér í Ally, tónlistarkonu á fertugsaldri sem þráði fátt meira en að slá í gegn.

„Mér finnst ég ekki alltaf vera örugg en hann lét mér líða eins og ég væri frjáls,“ sagði hún á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. „Á sama tíma er hann svo einbeittur þegar hann er að vinna. Ég fékk að lifa drauminn minn. Það geta verið hundrað manneskjur í herbergi og 99 þeirra trúa ekki á þig. Það þarf bara eina – og það var hann.“

https://www.youtube.com/watch?v=xVx-zvCjUZU

„Ég var hræddur í fyrstu“

Allir tónleikar sem sjást í myndinni A Star is Born eru teknir upp í beinni, eitthvað sem Lafðin fór fram á. Það fyllti Bradley óöryggi og rifjaði hann upp orð Lady Gaga á kvikmyndahátíðinni í Tribeca.

„Ég ætla að treysta á þig að ná hreinskilinni frammistöðu upp úr mér og ég ætla að tryggja að þú breytist í tónlistarmann því við ætlum að syngja allt í beinni,“ ku Lafðin hafa sagt við Bradley. Bætti hún við að það færi í taugarnar á henni þegar hún sæi leikara mæma á hvíta tjaldinu. „Hún hafði rétt fyrir sér. Þetta var mjög ógnvekjandi en ég treysti á hana,“ sagði Bradley.

Hvíslað í eyra.

Tónleikasenurnar voru teknar upp á Coachella- og Stagecoach-hátíðunum, sem og á Glastonbury-hátíðinni. Það kom Bradley á óvart hve auðvelt var að spila og syngja fyrir allt þetta fólk.

„Ég var hræddur í fyrstu,“ játaði Bradley í viðtali við W. „Þú gleymir öllu þegar þú ert á sviði fyrir framan þrjátíu þúsund manns. Ég náði næstum því ekki andanum. En síðan horfði ég á Stefani og slakaði á. Trú hennar á mér sem tónlistarmanni gaf mér hugrekki.“ Það kom Lafðinni einnig á óvart hve auðvelt var að leika í myndinni.

„Ég tók af allan farða, tók hárkollurnar af, var nakin á hátt sem ég hafði aldrei verið áður. En hann lét mér líða svo vel og frammistaða mín í myndinni er honum að þakka. Hann er stórkostlegur í þessari mynd. Leikurinn, leikstjórnin, lagasmíðarnar – allt er frábært. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ég er uppfull af gleði og þakklæti,“ sagði hún í viðtali við E! News.

Gat ekki gert þetta án hennar

A Star is Born var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ágúst á seinasta ári. Við tóku ýmsar uppákomur til að kynna myndina og nýttu Bradley og Lafðin hvert tækifæri til að mæra hvort annað.

„Sannleikurinn er sá að ég gerði þessa mynd með Bradley því ég trúi á hann sem kvikmyndagerðarmann, sem leikara, sem handritshöfund, sem tónlistarmann,“ sagði Lafðin á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Bradley var sama sinnis.

„Mig langaði að segja sögu fólks sem þurfti á hvort öðru að halda og hve erfitt það er, sama hver bakgrunnur fólks er. Þetta fólk fann hvort annað og þetta er sönn ást. Og það er auðveldara þegar maður hefur einhvern með sér í þessari vegferð. Og ég fór í þessa vegferð með Stefani. Ég get ekki ímyndað mér að hafa hugrekkið til að gera það án hennar.“

„Ég vildi óska að Bradley væri með mér núna“

Þessi ást og umhyggja sem Bradley og Lafðin hafa í garð hvors annars hefur aðeins vaxið með velgengni myndarinnar, sem hefur hlotið tilnefningar til stærstu verðlauna í heimi, svo sem Óskarsverðlauna og Golden Globe-verðlaunanna.

„Ég er þér svo þakklát. Ekki bara fyrir að gera mig að betri leikkonu en líka að ég hef getað kallað þig vin minn og grátið og verið ég sjálf. Þú hefur aldrei dæmt mig og virðir mig samt sem atvinnumann,“ sagði Lafðin í tárum þegar hún heiðraði Bradley á verðlaunahátíðinni American Cinematheque Award Presentation í nóvember. „Ég hef aldrei upplifað slíka listræna reynslu áður.“

Bradley og Lady Gaga eru mjög náin og elska hvort annað sem vini.

Lady Gaga og Bradley hafa setið hlið við hlið á öllum verðlaunahátíðum, fyrir utan BAFTA verðlaunin sem voru á sama tíma og Grammy-verðlaunin. Lafðin fór á Grammy, þar sem hún tók við verðlaunum fyrir lagið Shallow, og fannst leitt að leikarinn væri ekki með henni.

„Ég vildi óska að Bradley væri með mér núna,“ sagði hún í þakkarræðu sinni. „Hann er á BAFTA-hátíðinni í Bretlandi. Ég veit að hann vill vera hér. Bradley, ég elskaði að syngja þetta lag með þér.“

„Tengslin á milli mín og Bradley eru raunveruleg“

Sögusagnir um að Bradley og Lady Gaga hefðu fellt hugi saman fóru samt ekki almennilega á flug fyrr en hún fékk hann upp á svið á tónleikum í Las Vegas í síðasta mánuði til að syngja Shallow. Eftir Óskarsverðlaunin loguðu síðan samfélagsmiðlar og er fræga fólkið meira að segja farið að taka þátt í vangaveltum um samband listamannanna.

„Mér leið svo illa fyrir hönd kærustu Bradleys,“ sagði Mel B í þættinum Good Morning Britain og leikarinn David Spade gekk skrefinu lengra á Instagram þar sem hann skrifaði: „Eru einhverjar líkur á að þau tvö séu ekki að ríða?“

Bradley er hins vegar á rammföstu með fyrirsætunni Irinu Shayk og eiga þau dótturina Leu saman sem verður brátt tveggja ára. Lady Gaga sleit nýverið trúlofun sinni við Christian Carino. Ljóst er hins vegar að samband Bradley og Lafðinnar er einstakt í stjörnuheimum.

„Ég elska hana svo mikið,“ sagði Bradley í viðtali við Time. „Það er af því að við deildum stundum þar sem við vorum hvað berskjölduðust.“ Lafðinn hafði svipaða sögu að segja í samtali við E! News í janúar og útilokaði ekki frekara samstarf þeirra á milli.

„Tengslin á milli mín og Bradley eru raunveruleg. Það gerðist um leið og við hittumst og þessi tengsl halda áfram að vaxa. Og myndi ég vinna með honum í framtíðinni? Án vafa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.