fbpx
Mánudagur 22.júlí 2019  |
BleiktFréttir

Segir skrif íslensks læknis grafa undan mannréttindabaráttu intersex fólks: „Líkamar intersex fólks eru svo sannarlega ekki gallaðir á nokkurn hátt“

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 18. ágúst 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú veit ég lítið um þína lífshagi, en mér finnst undarlegt að þurfa að útskýra fyrir fullorðnum einstaklingi hvers vegna það gæti verið lítillækkandi og sömuleiðis jaðarsetjandi fyrir intersex fólk að tala um líkama þeirra sem „frávik“ ritar Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir kynjafræðingur og trans aktívisti í opnu bréfi sem hún stilar á Birgi Guðjónsson lækni. Birgir skrifaði í gær pistil í Morgunblaðið þar sem hann fjallar um málefni intersex fólks. Segir Birgir orðið intersex tiltölulega nýtt orð sem sé samheiti um frávik frá þróun kynferðis hvað varðar litninga, hormóna og breytileika innri sem ytri kynfæra.

„Við útlitsfrávik var lengi almennt talið rétt að grípa inn í til „leiðréttingar“, hvort sem er með hormónagjöf eða skurðaðgerð, einkum þegar ytri kynfæri væru með mikil frávik, á fræðimáli „ambigious genitalia“. Á þetta er nú deilt einkum hvað snertir skurðaðgerðir á kynfærum. Ég tel að þar sé farið nokkuð geyst hvað sem fundarsamþykktum viðkemur. Stundum getur t.d. verið þvagrásarmisþróun hjá drengjum sem þarf að reyna að laga,“ segir Birgir meðal annars í grein sinni.

Bernskuárin erfið þurfi barn að vaxa upp með ytri kynfæri frábruðin jafnöldrum

Þá telur Birgir að mörgu barninu gæti reynst bernskuár erfið í nútímasamfélagi að þurfa að vaxa upp með ytri kynfæri frábrugðin jafnöldrum sínum.

Segir Birgir að: „Þessi mál eiga örugglega eftir að skýrast en ég vona að foreldrar sem eignast barm með miklum frávikum á ytri kynfærum eigi kost á bestu mögulegu læknisfræðilegri og félagslegri ráðgjöf.“

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir sem barist hefur ötullega gegn hvers kyns fordómum svarar í dag bréfi Birgis og spyr hann hvernig það væri að fólk tæki sig saman um að breyta samfélaginu svo að allir geti notið líkamlegrar friðhelgi.

Uglu finnst undarlegt að þurfa að útskýra lítillækunina fyrir fullorðnum einstaklingi

„Kæri Birgir Guðjónsson. Nú veit ég ekki fyllilega hver eru undirliggjandi skilaboð þessarar greinar, en mín túlkun er sú að hún grafi undan mannréttindabaráttu intersex aktívista og samtaka hérlendis og víðvegar um heim,“ á þessum orðum hefur Ugla svar sitt til Birgis.

„Nú veit ég lítið um þína lífshagi, en mér finnst undarlegt að þurfa að útskýra fyrir fullorðnum einstaklingi hvers vegna það gæti verið lítillækkandi og sömuleiðis jaðarsetjandi fyrir intersex fólk að tala um líkama þeirra sem „frávik“. Líkamar intersex fólks eru svo sannarlega ekki neinskonar frávik né gallaðir á nokkurn hátt. Hverju ættu þau svo sem að vera frávik frá? Okkar samfélagslegu flokkun á kyneinkennum?“

Ugla segist ekki búast við því að Birgir hafi góða skilning á því hvers vegna orðið „frávik“ gæti verið niðrandi og særandi enda gefi hán sér það að enginn hafi talað um líkama Birgis sem frávik, rangan, gallaðan eða þar fram eftir götunum. Einnig setur Ugla út á orðið „þvagrásarmisþróun“ sem Birgir notar til útskýringar.

„Einnig veit ég lítið um hvort þú þekkir mikið af intersex fólki eða þekkir mikið til réttindabaráttu þess. Sjálf hef ég kynnst ótal mörgum intersex aktívistum í gegnum mína mannréttindabaráttu og nýlega stýrði ég ráðstefnu þar sem að intersex aktívistar í Bretlandi komu fram og deildu sinni reynslu af því að vera intersex, meðal annars manneskjur eins og þú talar um í greininni þinni. Ein sagan snerti mig sérstaklega, en þar talaði manneskja sem fæddist einmitt með „þvagrásarmisþróun“ eins og þú orðar svo stórfenglega.

Manneskjan sem talaði lýsti þeirri hræðilegu og síendurtekinni upplifun að hafa ítrekað þurft að eyða mánuðum saman á spítala oft á ári, án þess að vita almennilega hvað var á seyði. Háni var sagt að hafa hljótt um þetta, og alls ekki tala um þetta við bekkjarfélaga og helst engan. Foreldrum háns var sagt að segja ekki nokkrum frá heldur og var háni því kennt að byrgja inni mikla skömm og þögn hvað varðar líkama háns. Það er nefnilega þannig að aðgerðir sem eru framkvæmdar á intersex fólki, eða fólki með ódæmigerð kyneinkenni, eru nær allar óþarfar og eingöngu „fegrunaraðgerðir“. Í einstaka tilfellum er það lífsnauðsynlegt að framkvæma aðgerðir og er það auðvitað mjög mikilvægt að slíkt sé gert. En í lang flestum tilfellum er þess ekki þörf og kynfæri eða önnur kyneinkenni einstaklinga eru fullkomlega í lagi.“

Ekki bara ein aðgerð og allt búið

Segist Ugla hafa hlustað á endalausar sögur af intersex fólki sem lýsir skelfilegri æsku sinni, brotinni sjálfsmynd og síendurtekinna ferða á spítala í aðgerðir eða inngrip vegna þeirra óþarfa inngripa sem gerð voru á þeim sem börn.

„Þetta er ekki bara ein aðgerð og allt er búið—sumt fólk undirgengst aðgerðir nánast alla sína ævi og eiga erfitt með það að stunda kynlíf, láta snerta sig eða yfir höfuð vilja hugsa um líkama sinn, hvað þá vera sátt með eigin líkama. Ég hef setið og grátið með intersex fólki sem hefur orðið fyrir svo miklu áfalli í æsku að það getur ekki einu sinni hlustað á sögur annars intersex fólks án þess að fá taugaáfall. Ég hef setið og grátið með þeim þegar þau segja hvernig þeirra líkamlega friðhelgi er tekin frá þeim og aðgerðir framkvæmdar á þeirra líkama án þeirra samþykkis sem leiddu til alvarlega heilsufarsvandamála. Og til hvers? Allt gert í nafni þess að þau líti nú nógu vel út, geti stundað kynlíf með manninum sínum eða konunni sinni og svo fólk fari nú ekki að gera þeim mein eða leggja þau í einelti sem börn.“

Telur Ugla vandamálið ekki vera intersex fólk, líkamar þeirra eða hugsanlegir pervertar sem sýna líkömum þeirra áhuga.

Vandamálið er heilbrigðiskerfið

„Vandamálið er rótgróið kynjakerfi sem jaðarsetur líkama intersex fólks, rífur af þeim alla reisn, samþykki og þeirra líkamlegu friðhelgi. Vandamálið er heilbrigðiskerfið, sem sannfærir okkur um það að hér sé verið að gera rétt. Vandamálið eru læknar sem sannfæra foreldra um að það þurfi að framkvæma aðgerðir eða jafnvel framkvæma slíkar aðgerðir án þess að ráðfæra sig við drottningu né prest. Vandamálið er að fólk í valda- og áhrifastöðu líkt og þú talar gegn intersex fólki og þeirra reynslu. Vandamálið er að intersex fólk hafi ekki ráð yfir eigin líkama og geti tekið ákvarðanir sjálft um hvort þau vilji undirgangast aðgerðir eður ei. Vandamálið er ekki þau—heldur okkar samfélagsgerð. Hvernig væri því að við tækjum okkur saman um að breyta samfélaginu svo að við getum öll notið líkamlegrar friðhelgi, í stað þess að breyta fólki og líkömum þess til að passa inn í tvíhliða og jafnframt kúgandi kerfi?“

Segir Ugla það vera grundvallaratriði að samfélag okkar sé byggt á því að intersex fólk fái sjálft að stjórna ferðinni þegar kemur að aðgerðum á líkömum þeirra.

„Þeirra líkami. Þeirra ákvörðun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Jarðskjálfti í Torfajökli

Jarðskjálfti í Torfajökli
Fréttir
Í gær

„Tæknibyltingin bíður ekki eftir okkur og það er gróf vanræksla að ætla að bíða eftir að harmleikur gerist”

„Tæknibyltingin bíður ekki eftir okkur og það er gróf vanræksla að ætla að bíða eftir að harmleikur gerist”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kviknað í áhaldaskúr í Kópavogi

Kviknað í áhaldaskúr í Kópavogi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásta Guðrún segist með áfallastreitu vegna Birgittu: „Ég er með kökk í hálsinum af kvíða“

Ásta Guðrún segist með áfallastreitu vegna Birgittu: „Ég er með kökk í hálsinum af kvíða“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Myndir af strönduðu skútunni

Myndir af strönduðu skútunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Klám tekið upp í Neskaupstað: „Margir hér í bænum horfðu á það“

Klám tekið upp í Neskaupstað: „Margir hér í bænum horfðu á það“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.