fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Bleikt

Elsa hélt framhjá manninum sínum – Ástleysið var að drepa hana

Ragnheiður Eiríksdóttir
Mánudaginn 15. október 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástleysið var að drepa Elsu: Hélt framhjá manninum sínum

Elsa (dulnefni) er kona á fimmtugsaldri sem skildi við manninn sinn fyrir ári. Hún hafði verið gift í 18 ár og á eitt fullorðið barn með fyrrverandi manni sínum. Hún hélt framhjá honum skömmu áður en hún ákvað að biðja um skilnað. Framhjáhaldið var ekki beint orsök skilnaðarins, enda komst það ekki upp fyrr en nokkrum mánuðum eftir skilnaðinn.

Ég er ekki týpan til að halda framhjá og hef aldrei verið það. Ég þrái alltaf heiðarleika. Þegar ég ákvað að halda framhjá var ég algjörlega komin á ystu nöf af langvarandi ástleysi. Maðurinn minn var með hugann allt annars staðar svo lengi, mig hefur stundum grunað hann um að hafa haldið framhjá mér, en ég er ekki viss. Ég fékk ekki einu sinni móral þegar ég gerði þetta. Ástleysið var algjört í sambandinu og ég var svo oft búin að láta hann vita að það væri að drepa mig.

Ömurleg ást

Framhjáhaldið var með einhleypum manni sem Elsa kynntist gegnum sameiginlega vini þeirra hjóna. Það stóð í nokkrar vikur.

„Ég varð ástfangin og blind af ógeðslega ömurlegri ást. Ég vissi að hann vildi mig ekkert, nema smá, hann var ekkert hrifinn af mér en ég lét mig hafa það og fékk einhverja smá brauðmola sem ég gerði mér að góðu. Þetta var bein afleiðing af ástleysinu í sambandinu – ég gerði ekki kröfur um meira. Öll mín karlamál enn í dag eru lituð af þessu ástleysi. Það er ofbeldi í ástleysi. Það að sinna ekki maka sínum, vera fjarlægur og gefa ekki af sér, er bara ofbeldi. Sumir þola þetta en það þarf að vera samræmi í þörfum fólks sem ákveður að vera saman. Í mínu tilfelli gat maðurinn minn ekki elskað eins og ég þurfti, kunni það ekki vegna eigin tilfinningalegra vandamála. Hann var ekki ofbeldishneigður og alltaf mjög viðkunnanlegur og félagslega sterkur, en rosalega fjarlægur. Ég vissi þetta áður en við byrjuðum saman en hélt að ég gæti unnið með þetta – kennt honum að elska. Ég elska hann ennþá og vil honum allt hið besta – en hann verður aldrei aftur maðurinn minn. Núna þarf ég ekki ástina hans lengur og þá finnst mér hann æðislegur.“

Reiði og fyrirgefning

Eftir skilnaðinn fékk fyrrverandi maður Elsu óyggjandi sannanir fyrir framhjáhaldi hennar og reiddist mjög.

„Svo áttaði hann sig á að ég var búin að vara hann hundrað sinnum við. Ég var svo hrædd við sjálfa mig og að þurfa að horfast í augu við að vera vondi kallinn. Ég er aldrei vond við neinn. Þess vegna neitaði ég fram í rauðan dauðann þangað til hann kom með ótvíræðar sannanir. Eftir hita og reiði sem stóð í nokkrar vikur fyrirgaf hann mér fullkomlega. Hann veit upp á sig skömmina og skilur hvaða þátt hann átti í að ýta mér út á ystu nöf. Óhamingjan var svo svakaleg að ég sá enga aðra lausn. Ég hefði auðvitað átt að gera þetta hreinlega, skilja við hann áður en ég leyfði mér að verða ástfangin af öðrum. Þetta var algjör uppgjöf, hann var ekki til staðar og sambandið var búið. Eins og ástarþrá í mörg hundruð ár. Ég held að ég hafi verið of veikgeðja til að hætta með honum. Framhjáhaldið var eiginlega til þess að það yrði ekki aftur snúið. Það var engin leið til baka þegar ég var búin að halda framhjá honum. Ég held að þetta sé rosalega algengt. Ég vissi að hann mundi ekki geta verið kvæntur mér áfram eftir svona nokkuð. Það er svo erfitt fyrir manneskju eins og mig sem þráir nánd svona mikið, að vera í sambandi þar sem hana skortir algjörlega.“

Krafa um ást

Elsa ætlar ekki að gefa afslátt af sínum þörfum í næsta sambandi.

„Ég nenni ekki þessu kjaftæði að það sé litið á það sem veikleika að þurfa ást. Við erum stórkostlega bæld og með krónískan höfnunarótta og það eyðileggur sambönd. Maður má alveg krefjast þess að vera elskaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Dóttir Michael Jackson ræðir kynhneigð sína í heimildarþætti – „Pabbi skildi mig“

Dóttir Michael Jackson ræðir kynhneigð sína í heimildarþætti – „Pabbi skildi mig“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Sjáið nýja stiklu úr umhverfisvænum þáttum Zac Efron

Sjáið nýja stiklu úr umhverfisvænum þáttum Zac Efron
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Stjörnurnar hvetja fólk til að nota grímu – Dr. McDreamy með mikilvæg skilaboð

Stjörnurnar hvetja fólk til að nota grímu – Dr. McDreamy með mikilvæg skilaboð
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Kim Khardashian alls enginn milljarðamæringur

Kim Khardashian alls enginn milljarðamæringur
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Smith fjölskyldan lætur YouTube-stjörnu heyra það: „ÞÚ ERT ÓGEÐSLEGUR SHANE DAWSON“

Smith fjölskyldan lætur YouTube-stjörnu heyra það: „ÞÚ ERT ÓGEÐSLEGUR SHANE DAWSON“
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Blaðamaður og áhrifavaldur: „Hinn almenni borgari skal aldrei miða sig við ókunnugan á netinu“

Blaðamaður og áhrifavaldur: „Hinn almenni borgari skal aldrei miða sig við ókunnugan á netinu“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.