fbpx
Fimmtudagur 19.september 2019  |
Bleikt

Guðrún var alltaf með útlitið á heilanum: „Þegar maður er farinn að bera sig saman við óraunveruleikann þá á maður ekki séns“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 10. september 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Runólfsdóttir átti mjög góða æsku, fékk gott uppeldi og átti nóg af vinum. Þegar hún var yngri gekk henni mjög vel í skóla og skipti námið hana miklu máli. Í dag er Guðrún orðin 24 ára gömul og á með eiginmanni sínum tveggja ára gamlan son. Líf Guðrúnar virðist í fyrstu sýn hafa gengið áfallalaust fyrir sig enda kemur hún vel fyrir og er á andlega góðum stað í dag. En það er þó ekki alveg raunin en þegar Guðrún var aðeins sextán ára gömul komu fram miklar breytingar í fari hennar sem vöktu undrun foreldra hennar.

„Ég held við höfum öll haldið að þetta væri bara tímabil. Árið 2011 fór ég út sem skiptinemi til Nýja Sjálands og þar var ég byrjuð að veikjast á geði. Allt í einu var erfitt að vakna í skólann og ég var farinn að kvíða því að mæta. Ég var kannski mjög þung á mér í nokkra daga og svo hátt uppi í nokkra daga til skiptis. Ég kom svo heim aftur og fer í svarta þunglyndi í bland við örlyndi. Þetta gerðist allt mjög hratt og eftir mjög hræðilega reynslu í maníu í apríl árið 2012 var ég lögð inn á BUGL, enda bara sautján ára á þeim tíma,“ segir Guðrún í viðtali við Bleikt.

Mikið áfall að greinast með geðhvörf

Guðrún hefur verið dugleg að ræða opinberlega um andleg veikindi sín en nýlega ákvað hún að opna umræðuna á það hvernig þau höfðu áhrif á líkamlega heilsu hennar líka og mætti hún þá miklu mótlæti.

„Fljótlega efir að ég var lögð inn var ég greind með geðhvörf. Þetta var mikið áfall fyrir mig og fjölskyldu mína því það var eins og allt breyttist allt í einu. Ég náði ekki að halda mér í skóla né vinnu og átti erfitt með daglegt líf. Ég hef sem betur fer alltaf verið opin fyrir hjálpinni, enda fundið að ég þarf á henni að halda.“

Það tók Guðrúnu um sex ár að finna rétt lyf fyrir sig sem halda henni í góðu jafnvægi.

„Ég hef verið á mjög mörgum mismunandi geðlyfjum og það er erfitt að sætta sig við það að þurfa að taka lyf til þess að lifa en á sama tíma er ég svo þakklát fyrir það að þau séu til. Ég hef verið hjá sálfræðingum síðan ég greindist og hef lagt á mig mikla vinnu í hugrænni atferlismeðferð, núvitund og fleiru.“

Upplifði sig sem óhæfa móður

Þegar Guðrún veiktist bætti hún á sig 40 kílóum á mjög stuttum tíma vegna aukaverkana af lyfjunum, þunglyndis og slæmra matarvenja.

„Þetta fór alveg með sjálfstraustið mitt og ég forðaðist spegla á tímabili. Ég hef fundið það síðastliðin tvö ár hvað heilbrigður lífsstíll styður andlegt jafnvægi og legg ég mikla áherslu á það í dag. En þegar ég var sem verst af þunglyndinu var erfitt að fara fram úr, í sturtu og að bursta tennurnar. Hvað þá að fara í ræktina eða elda hollan mat. Eftir að ég átti son minn þá versnuðu veikindi mín enn frekar. Ég gekk í gegnum þunglyndissveiflu eftir að ég átti og fyrsta ár hans var mér mjög erfitt. Ég var ringluð og leið eins og ég væri óhæfð móðir þrátt fyrir að ég væri að standa mig vel samkvæmt öllum í kringum mig. Ég hef verið lögð inn á geðdeild margoft síðan, bæði vegna þunglyndis og uppsveiflu.“

Guðrún segir að þrátt fyrir að geðheilbrigðisstarfsmenn séu að leggja sig alla fram í starfi að þá sé fjársvelti heilbrigðiskerfisins vel greinilegt.

„Ég held að flest allir sem starfa í geðheilbrigðisgeiranum séu að leggja sig alla fram og sinna sínu starfi vel, en það þarf að leggja meira fjármagn í þessi mál því oftast er allt yfirfullt á deildunum og mörgum er neitað um aðstoð eða boðið að fara heim með róandi lyf. Þess vegna er oft verið að útskrifa fólk þegar það er ekki tilbúið, jafnvel ekki búið að koma jafnvægi á lyfin og fleira. Það eru ekki allir svo heppnir að hafa efni á geðlækni og sálfræðingi og kerfið þarf að styðja betur við andlega veikt fólk því við erum svo mörg sem göngum í gegnum þetta og festumst í slæmu ástandi of lengi. Ég tala nú ekki um þá sem enda á því að gefast upp á lífinu því það upplifir að það komi að lokuðum dyrum.“

Þrátt fyrir að Guðrún sjái margt sem betur megi fara í geðheilbrigðiskerfinu segir hún sína reynslu jákvæða.

„Mín persónulega reynsla af kerfinu er í heildina litið jákvæð því ég hef fundið mér hjálp í geðhvarfa teyminu á göngudeildinni á Kleppi. Þar er teymi fagfólks sem veitir mér ómetanlegan stuðning og frá því að ég byrjaði hjá þeim hefur allt gengið mjög vel.“

Alls ekki með fordóma gegn fólki í ofþyngd

Eins og fyrr sagði ákvað Guðrún nýlega að deila reynslu sinni á því hvernig andleg veikindi hennar höfðu áhrif á líkamlegt heilbrigði hennar og hlaut í kjölfarið miður skemmtileg viðbrögð. Deildi hún myndbandi þar sem hún ræddi um andlegt og líkamlegt heilbrigði og ræddi þar mikilvægi þess að lifa í jafnvægi án þess að fara út í öfga. Umræða Guðrúnar virtist fara fyrir brjóstið á mörgum og var henni meðal annars sagt að hún hefði fordóma gegn fólki í ofþyngd sem Guðrún segir alls ekki rétt.

„Ég hef alltaf verið með útlitið mitt á heilanum. Þá sérstaklega hefur mig alltaf dreymt um að vera grönn, alveg frá því að ég man eftir mér. Ég var í fimleikum sem krakki og í mjög góðu formi, aldrei neitt tágrönn, en í góðu formi til svona sautján ára aldurs. Eftir að ég bætti á mig öllum kílóunum í kjölfar lyfjanna, þá byrjaði ég að fyrirlíta líkama minn. Mér fannst ég minna virði því ég var ekki í góðu formi en ég kom mér ekki úr þessu ástandi. Ég upplifði mig fasta og kom mér ekki af stað til þess að létta mig og verða heilbrigðari. Ég prófaði allskonar kúra og náði einhverjum kílóum af mér en þau komu yfirleitt tvöfalt til baka.“

Á þessum tíma var umræðan um sjálfsást og jákvæða líkamsímynd orðin hávær í þjóðfélaginu og tók Guðrún því mjög bókstaflega.

„Ég túlkaði sjálfsást og jákvæða líkamsímynd á þessum tíma þannig að ég væri bara flott eins og ég var og að ég þyrfti ekkert að gera í mínum málum. Það væri ekkert að því að vera feit og að ég ætti að elska líkama minn eins og hann var. Ég notaði þetta í raun sem afsökun fyrir því að gera ekkert í mínum málum. Að sjálfsögðu er sjálfsást ekki hugsuð á þennan veg og ég skil það í dag. En á sínum tíma var ég veik og ég greip þetta til þess að rökstyðja það fyrir sjálfri mér að breyta ekki mínum siðum.“

Ákvað að taka á sínum málum eftir veikindi á meðgöngu

Árið 2015 varð Guðrún ólétt að syni sínum og fékk í kjölfarið meðgöngusykursýki.

„Þegar leið á meðgönguna fékk ég meðgöngusykursýki en hún var sem betur fer mjög væg og gat ég stjórnað henni með mataræði. Ég gleymi samt aldrei samtali sem ég átti við ljósmóður mína, en hún sagði mér að ég þyrfti að gera breytingar á lífsstíl mínum ef ég vildi koma í veg fyrir það að þróa með mér áunna sykursýki seinna á ævinni. Þessar samræður fengu mig til þess að staldra við og hugsa. Þá varð ég ákveðin í því að taka á mínum málum. Eftir að ég átti þá tóku mikil veikindi við og það sem mér hafði tekist að léttast á meðgöngunni kom aftur ásamt því að ég bætti meira á mig.“

Í mars á síðasta ári fór Guðrún í magaermisaðgerð.

„Ég tók þessa ákvörðun því ég fann að ég réði ekki við stöðuna sem ég var búin að koma sjálfri mér í. Ég virtist ekki ná jafnvægi sama hvað og ég ákvað að leita mér hjálpar til þess að ná yfirþyngdinni af mér. Þetta er að sjálfsögðu bara hjálpartæki en ég get sagt það að þetta bjargaði mér og minni heilsu. Ég hef unnið markvisst að því að elska sjálfa mig og líkama minn þá sérstaklega. Þetta ferðalag mitt í átt að sjálfsást hefur verið algjörlega magnað. Eftir aðgerðina setti ég of mikla pressu á sjálfa mig að léttast sem leiddi til mikilla öfga. Ég leitaði mér því hjálpar hjá átröskunarteyminu á Hvíta Bandinu til þess að vinna bug á átröskuninni sem ég hef verið með í mörg ár. Ég er ekki komin í kjörþyngd en ég er mjög sátt þegar ég lít í spegil og er stolt og ánægð með það hvernig ég hugsa um líkama minn í dag.“

Mikilvægt að hugsa vel um líkama sinn

Guðrún segir mikla vinnu liggja að baki sjálfsástar og að það sé ekki hlutur sem fólk læri á einum degi. Einnig segir Guðrún mikilvægt að fólk hugsi vel um líkama sinn, sama í hvaða formi sem hann er, þar sem okkur sé einungis gefin einn líkami til afnota.

„Maður ákveður ekki bara einn daginn að elska sjálfan sig. Það er langt ferli og maður þarf að leggja á sig mikla vinnu á hverjum einasta degi til þess að tala betur til sjálfs síns og að taka utan um sjálfan sig. Að næra líkamann sinn vel og að hreyfa sig reglulega skilar sér í betri líðan. Sjálfsást fyrir mér er að elska sjálfan sig sem manneskju. Að hugsa vel um sig líkamlega og andlega og að bera virðingu fyrir sjálfum sér. Mesti lærdómurinn sem ég hef lært á síðustu árum í gegnum alla mína erfiðleika, er að leggja áherslu á jafnvægi í lífinu almennt. Ekki að fara í ræktina á hverjum degi alla vikuna heldur að láta sér þrjú skipti duga. Leyfa sér að fá sér pizzu þegar okkur virkilega langar í hana en að fá sér þá ekki of mikið og svo framvegis. Jafnvægi er það sem ég er búin að þrá og vilja ná síðan veikindi mín byrjuðu fyrir sjö árum síðan og loksins líður mér eins og ég sé komin þangað.“

Guðrún segist vel vita að erfiðir tímar geti bankað upp á hjá henni aftur en að í dag sé hún betur undirbúin.

„Ég er bæði betur undirbúin og með bjargráðin tilbúin. Mér finnst mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg. Ég til dæmis elska að lyfta og geri það þrisvar sinnum í viku. Ég læt brennslutækin nánast alveg vera og geng frekar úti því mér finnst náttúran hafa góð áhrif á mig. Andleg heilsa er svo mikilvæg en hún gleymist oft og sumir skammast sín fyrir andleg veikindi. Fólk áttar sig ekki strax á því að það sé að veikjast andlega, því þetta er ekki eins og fótbrot. Þetta er ekki eitthvað sem grær, þetta er stanslaus vinna.“

Ekki hægt að bera sig saman við óraunveruleikann

Það sem Guðrún telur mikilvægast fyrir fólk með andleg veikindi er að hlusta á fólkið í kringum sig.

„Ef þau taka eftir óvenjulegri hegðun eða ef þú finnur neikvæðar tilfinningar eða hugsanir sem þú kannast ekki við, talið þá við traustan vin, foreldra eða leitið til læknis eða sálfræðings. Það er mikilvægast að gera sér grein fyrir vandamálinu og leita sér hjálpar því lífið getur orðið svo miklu betra. Í langan tíma upplifði ég greininguna mína sem einhverskonar dauðadóm, eins og að ég ætti ekki möguleika á því að verða hamingjusöm aftur. En ég er það í dag og ég þakka fyrir hvern dag sem ég upplifi ró og jafnvægi.“

Guðrún telur margt í nútíma samfélagi geta haft áhrif á ungt fólk sem er að læra að elska sjálft sig.

„Samfélagsmiðlar geta til dæmis bæði haft mjög neikvæð en líka jákvæð áhrif á ungt fólk sem á erfitt með líkamsímynd, sjálfstraust og sjálfsmat. Þess vegna hvet ég fólk sem notar til dæmis Instagram að fylgja frekar fólki sem hefur eitthvað uppbyggilegt að segja eða sýna. Ég var, sem dæmi, einhverra hluta vegna með marga erlenda áhrifavalda sem mér fannst ekki hvetjandi. Þar fylgdist ég með því þegar þau virtust vera að keppast við hver ætti dýrustu töskuna, flottasta bílinn og stærsta húsið. Ásamt því að breyta myndunum sínum heilmikið þannig að það sem maður sá var ekki einu sinni raunveruleikinn. Þegar maður er farinn að bera sig saman við óraunveruleikann þá á maður ekki séns. Samanburðurinn er rosalega hættulegur og maður verður að láta það alveg vera. Hins vegar tel ég áhrifin sem samfélagsmiðlar hafa í dag algjörlega mögnuð og finnst svo sannarlega vera hægt að nýta sér þá á góðan og uppbyggilegan hátt. En ég viðurkenni það alveg að ég er ánægð að hafa ekki alist upp með alla þessa pressu sem virðist vera á ungum krökkum í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Stjörnuspá vikunnar: Þú lærir ný trix í svefnherberginu og lendur þínar hafa sjaldan verið jafn sjóðandi heitar

Stjörnuspá vikunnar: Þú lærir ný trix í svefnherberginu og lendur þínar hafa sjaldan verið jafn sjóðandi heitar
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Fimm ástæður stöðugrar þreytu

Fimm ástæður stöðugrar þreytu
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Nýfædd dóttir Elvu verður tekin af henni eftir tvo daga: „Ég næ ekki að taka fortíð mína til baka“

Nýfædd dóttir Elvu verður tekin af henni eftir tvo daga: „Ég næ ekki að taka fortíð mína til baka“
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Kennarar refsuðu henni fyrir að vera með stór brjóst: „Ég var látin sitja eftir fyrir að knúsa bróður minn“

Kennarar refsuðu henni fyrir að vera með stór brjóst: „Ég var látin sitja eftir fyrir að knúsa bróður minn“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Alexandrea lætur allt flakka: „Ég hélt alltaf að ég væri aumingi“ – Fordómar vegna vefjagigtar

Alexandrea lætur allt flakka: „Ég hélt alltaf að ég væri aumingi“ – Fordómar vegna vefjagigtar
Bleikt
Fyrir 1 viku

Hún hætti að vinna sem snyrtifræðingur til að þrífa nakin – Rekur nú fyrirtæki með 15 starfsmenn

Hún hætti að vinna sem snyrtifræðingur til að þrífa nakin – Rekur nú fyrirtæki með 15 starfsmenn

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.