Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, þá er Everest hærra en það ætti að vera. Munar þar um 50 metrum.
Fyrir 89.000 árum var á, sem rann um 75 km frá Everest, „tekin“ yfir af annarri á. Þetta samrennsli þeirra myndaði stórt gil sem aftur varð til þess að mikill landmassi fór forgörðum og því tók Everest góðan vaxtarkipp.
Everest trónir 8.848 metrar yfir sjávarmál en eftir því sem Adam Smith, meðhöfundur fyrrgreindrar rannsóknar, sagði í samtali við Live Science, þá er fjallið hærra en það ætti að vera. Hann sagði að í Himalaya sé hæðarmunur flestra fjallstoppa 50 til 100 metrar. Everest er hins vegar 250 metrum hærra en næst hæsta fjallið, sem er K2. „Þetta bendir kannski til að eitthvað spennandi sé í gangi,“ sagði hann.
GPS gögn sýna að fjallið hækkar um 2 millimetra á ári en það er meira en reikna má með að fjallgarðurinn lyftist um. Til að finna ástæðuna fyrir þessu rannsökuðu vísindamennirnir hvort óvenjulegar ár í Himalaya gætu verið drifkrafturinn.
„Arun áin er undarleg því hún rennur í L. Flestar ár líkjast trjám, með frekar beinan stofn og greinar (þverár) sem renna í stofninn. En samt sem áður rennur Arun frá austri til vesturs meðfram andstreymis hlutanum, áður en hún tekur 90 gráðu beygju og rennur í suður í gegnum Himalaya. Þetta bendir til að lögun hennar hafi breyst nýlega og að hún hafi jafnvel „tekið“ aðra á yfir,“ sagði Smith.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Nature Geoscience.