Barnabarn ísraelskrar konu segir að hjarta hennar hafi brotnað í þúsund mola þegar amma hennar var myrt af vígamönnum Hamas-samtakanna.
Morðingjarnir notuðu svo síma gömlu konunnar til að taka myndir af líkinu sem svo voru birtar á Facebook-síðu hennar.
New York Post greinir frá þessu.
Barnabarnið, Mor Bayder, segist hafa fengið áfall þegar hún loggaði sig inn á Facebook þar sem hryllilegar myndir og myndbönd af ömmu hennar blöstu við henni. Höfðu Hamas-liðar ruðst inn á heimili hennar í Nir Oz þar sem hún var tekin af lífi. Bayder hafði ekki hugmynd um afdrif ömmu sinnar fyrr en hún fór á Facebook þennan morgun.
Amma hennar hafði búið í Nir Oz í suðurhluta Ísraels allt sitt líf. Þær voru mjög nánar og lagði amma hennar það í vana sinn að senda henni textaskilaboð alla morgna.
Talið er að um 800 Ísraelsmenn hafi verið myrtir síðan Hamas-samtökin réðust inn í landið á laugardag. Viðbúið er að fjöldi látinna muni hækka á næstu dögum enda hafa Hamas-samtökin hótað því að byrja að taka af lífi ísraelska gísla sem þeir hafa tekið. Talið er að um 130 óbreyttir borgarar séu í haldi samtakanna.