fbpx
Laugardagur 19.júlí 2025
Fréttir

Þetta kostar að eignast barn

Hægt að reikna með hálfri milljón í „startkostnað“ ef allt er keypt nýtt – Fjárútlátin minnst á meðgöngunni – Dagvistun stór kostnaðarliður fyrsta árið

Auður Ösp
Föstudaginn 3. mars 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er síður en svo ókeypis að eignast barn á Íslandi í dag. Oftast eru fjárútlátin minnst á meðgöngunni sjálfri en eftir að erfinginn kemur í heiminn bætast við óteljandi kostnaðarliðir, og ekki stendur alltaf til boða að fá hlutina lánaða, gefins eða keypta notaða á lægra verði. Langflestir verðandi foreldrar vilja barninu sínu aðeins það besta en sé ætlunin að kaupa allt nýtt getur kostnaðurinn hlaupið á hundruðum þúsunda, og allt upp í milljón krónur.

Meðgöngukostnaður

Öll mæðraskoðun hjá ljósmóður og nánast allar læknisheimsóknir tengdar meðgöngu eru ókeypis hér á landi en ef leitað er til sérfræðinga á stofu bætist við kostnaður. Á fósturgreiningardeild Landspítalans kostar það tæplega 4.800 krónur að fara í snemmsónar. Ómskoðun á 11 til 14 viku kostar rúmlega 8.000 krónur á Landspítalanum og þá bætast við tæpar 2.000 krónur ef bætt við hnakkaþykktarmælingar þar sem skimað er eftir litningagalla hjá fóstrinu. Frítt er að fara í 20 vikna sónar en óski foreldrar eftir svokölluðum þrívíddarsónar þurfa þeir að reiða fram hátt í 20.500 krónur.

Önnur fjárútlát tengd meðgöngu barnsins eru til að mynda meðgöngufatnaður, líkamsrækt fyrir hina verðandi móður, sem og ýmiss konar námskeið. Hóflega áætlaður meðgöngukostnaður er tæpar 140 þúsund krónur miðað við dæmið sem tekið er hér að neðan.

Kostnaður tengdur komu barnsins

Á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands má finna lista yfir það sem nauðsynlegast er að eiga þegar barnið kemur í heiminn. Flestir kjósa að blanda saman notuðu og nýju og algengt er barnaföt séu látin ganga á milli fjölskyldumeðlima, systkina og vinahópa. Þá nýta margir sér erlendar vefverslanir og sölusíður á borð við Aliexpress, auk þess sem líflegur markaður með barnaföt og barnavörur er á bland.is og á hinum ýmsu sölusíðum á Facebook.

Mynd: Photos.com

Oft er hægt að spara tugi þúsunda með því að kaupa varninginn erlendis, þó svo að sendingarkostnaður og tollar bætist við verðið. DV greindi frá því í desember síðastliðnum að verðmunur á útsöluverði á Graco Junoir Maxi-barnastól á Íslandi og í Bretlandi væri allt að sjöfaldur. Bílstóllinn kostaði þá 4.940 krónur, tæplega 35 pund, í Argos í Bretlandi. Í versluninni Ólavía og Oliver kostaði stóllinn 35.990 krónur en viðskiptavinum Sjóvár bauðst þó að kaupa stólinn á lægra verði, eða 24.993 krónur.

Í dæminu hér fyrir neðan er miðað við foreldra sem eru að eignast sitt fyrsta barn og kjósa að kaupa að allt nýtt. Tekið er saman af handahófi verð á þeim hlutum sem finna má á lista Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, úr völdum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Dýrasti hluturinn reyndist vera barnavagn af hinni vinsælu tegund Silver Cross en vagninn kostar tæpar 190 þúsund krónur hjá Draumahöllinni. Næstdýrasti hluturinn reyndist vera barnabílstóll frá versluninni Ólavía og Oliver en stólinn kostar 87.590 krónur.

Hægt er að bæta við fleiri hlutum sem ekki myndu teljast nauðsynlegir, á borð við ömmustól, skiptiborð og brjóstagjafarpúða og bætast þá við tæpar 80 þúsund krónur. Skiptar skoðanir eru þó á því hvaða hlutir teljist nauðsynlegir og hverju megi sleppa. Kostnaðurinn byggist því fyrst og fremst á þörfum hvers og eins.

Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir rúmlega hálfri milljón í „startkostnað“ við að eignast sitt fyrsta barn. Vert er þó að taka fram að listinn er engann veginn tæmandi og getur kostnaðurinn hæglega orðið mun meiri eða mun minni. Þá eru ekki teknir með í dæmið minni hlutir og hlutir sem þarf að kaupa oftar á borð við pela, smekki, blautþurrkur, þurrmjólkurblöndu, hitamæli, hlustunartæki (baby monitor), barnaleikföng, regnslá fyrir barnavagninn og ýmislegt fleira.

Vilja innleiða finnska barnaboxið hér á landi

Í Finnlandi hefur tíðkast um áratugaskeið að nýfædd kríli fái gjöf frá samfélaginu; box sem inniheldur allt það helsta sem nýburinn þarf fyrstu mánuðina í lífinu. „Barnaboxin“ svokölluðu innihalda til að mynda útigalla, vettlinga og húfur, barnaföt og ábreiðu og einnig má nota þau sem rúm. Í boxinu er meira að segja að finna dömubindi, geirvörtukrem og brjóstapúða fyrir nýbakaðar mæður sem og smokka fyrir foreldrana.

Í dag geta foreldrar í Finnlandi valið um að fá peningastyrk eða barnsburðarpakka sem er hrein viðbót við hefðbundna fæðingarstyrki og fæðingarorlof. Barnsburðarpakkinn er með þeim hætti að allir eiga rétt á honum, óháð fjárhagsstöðu.

DV greindi frá því í mars á síðasta ári að sjö þingmenn úr þremur flokkum hefðu farið fram á þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp til að kanna þörfina á og grundvöllinn fyrir opinberum stuðningi við verðandi foreldra í formi vöggugjafar sem innihaldi nauðsynjavöru fyrir ungbörn. Gjöfin yrði í anda þess sem gert hefur verið í Finnlandi.

„Með þessu móti mætti í senn tryggja nýfæddum börnum nauðsynlegan útbúnað og spara nýbökuðum foreldrum bæði fyrirhöfn og peninga sem kæmi sér sérstaklega vel fyrir þá foreldra sem hafa lítið á milli handanna,“ segir meðal annars í greinargerð.

Á meðan flestir geta verið sammála um að lítið barn þurfi fyrst og fremst næringu, ást og umhyggju eru hins vegar skiptar skoðanir á hvaða hlutir teljist nauðsynlegir eða ekki til að barnið þrífist sem best. Í raun væri hægt að komast lengi af með aðeins föt, bleiur og bílstól og má því segja að allt annað sem keypt er sé fyrst og fremst til aukinna þæginda.

Eftir að barnið er komið í heiminn

Fæðing og sængurlega kostar ekkert á Íslandi en hins vegar borgar maki fyrir gistingu og fæði á sjúkrahúsinu.
Áður en barn fer í dagvistun felst kostnaðurinn aðallega í fatnaði og bleium.
Dagvistun er án efa stærsti kostnaðarliðurinn á fyrsta ári barnsins. Dagforeldrar starfa sem verktakar og ungbarnaleikskólar eru einkareknir og mega ekki gefa út samræmdar gjaldskrár. Það er því misjafnt hvað dagvistun kostar á hverjum stað en sveitarfélög niðurgreiða plássin eftir stöðu foreldra. Hægt er að gera ráð fyrir rúmlega 50 þúsund krónum á mánuði í dagmömmukostnað á höfuðborgarsvæðinu, miðað við átta og hálfan tíma á dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Þið hljótið að vera í skemmtilegasta starfinu, að fá að færa fólki svona fréttir!“

„Þið hljótið að vera í skemmtilegasta starfinu, að fá að færa fólki svona fréttir!“
Fréttir
Í gær

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður sagður í haldi lögreglu eftir eldsvoða í Reykjanesbæ – Stórhættulegt ástand skapaðist

Maður sagður í haldi lögreglu eftir eldsvoða í Reykjanesbæ – Stórhættulegt ástand skapaðist
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Doppumeistarinn er byrjaður á næsta verkefni – 570 uglur, ein fyrir hvern genginn kílómeter

Doppumeistarinn er byrjaður á næsta verkefni – 570 uglur, ein fyrir hvern genginn kílómeter