Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi deila um gjaldeyrislánin erfið. Það er skiljanlegt að margir vilji láta dóm Hæstaréttar standa eins og hann er, en um leið er það vond tilhugsun að fólk sem tók svona lán vitandi vits þurfi að borga sáralítið til baka meðan þeir sem tóku verðtryggð lán verða að sligast undan greiðslum næstu áratugi. Það er eiginlega óþolandi misrétti og ólíðandi í réttarríki.
Áhættan við gengislánin var auðvitað alltaf til staðar. Flestir sem tóku þau hljóta að hafa gert sér einhverja grein fyrir því. En fæstir skildu auðvitað að hún væri svona rosalega mikil. Sjálfur skrifaði ég færslu sem stundum hefur verið vísað í og sumir hafa hlakkað yfir árið 2007 þar sem ég sagði að það væri ólíkt hagstæðara að taka lán í erlendum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Vissulega voru vextirnir lægri, lántakendur sáu ganga hratt á höfuðstólinn ólíkt því sem er í verðtryggingunni. Einhverjir hafa túlkað það svo að ég hafi verið að hvetja fólk til að taka svona lán, en þá hafði ég leitað upplýsinga og var sagt að krónan mætti falla um 30-40 prósent og þrátt fyrir það yrðu gengislán enn hagstæðari.
Ég verð að viðurkenna að á þeim tíma hafði ég ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að evran myndi meira en tvöfaldast í verði gagnvart íslensku krónunni og japanska jenið næstum þrefaldast. Þetta er eitt mesta gengishrap sögunnar. Þá sem tóku gengislán gat fæsta órað fyrir þessu og því er sjálfsagt að tala um forsendubrest. Það er fáránlegt að halda því fram að þeir sem tóku gengislán séu upp til hópa óráðsíufólk.
En verði farið eftir dómi Hæstaréttar sem þýðir að þessi lán muni aðeins bera sirka tvö prósent vexti er ljóst að gengislánin eru sérlega hagstæð. Það má nánast tala um gjöf á peningum í því sambandi.
Skömmin er auðvitað hjá fjármálastofnunum sem deildu út þessum lánum þrátt fyrir óvissu um að þau stæðust lög og hjá yfirvöldum, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka sem létu þetta viðgangast. Gengislánin voru líka eitt af því sem gróf undan efnahagskerfinu, Seðlabankinn hækkaði vexti til að reyna að koma böndum á efnahagslífið en á sama tíma en á sama tíma magnaðist þenslan sökum þessa að fólk og fyrirtæki tóku gengislán til að forðast vaxtabölið. Þetta gerði vaxtastefnuna í raun óvirka – og Seðlabankann líka.
En um leið verður að gæta að tvennu. Það verður að stefna að einhvers konar jafnræði, eins og áður er nefnt, og það er heldur engin ástæða til að tala af léttúð um vanda fjármálakerfisins vegna þessa. Margir bera haturshug til bankakerfisins – og það er vissulega of stórt eins og það er núna – en Ísland rís samt ekki úr öskustónni án þess að hafa sæmilega stönduga banka.