

Tveir einstaklingar liggja alvarlega slasaðir á gjörgæsludeild Landspítalans vegna bílslyss sem varð á Suðurstrandarvegi í morgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Fram kemur að ökumaður og farþegi séu með meðvitund en dvelji á gjörgæsludeild vegna áverka og frekari umönnunar. Rannsókn málsins haldi áfram en vettvangsvinnu sé lokið á vettvangi.
Í tilkynningu í morgun kom fram að um bílveltu hafi verið að ræða. Tilkynning hafi borist klukkan 8:24 og fjölmennt lið viðbragðsaðila frá lögreglunni á Suðurnesjum, Brunavörnum Suðurnesja og Slökkviliði Grindavíkur farið á vettvang en hinir slösuðu hafi verið fluttir með sjúkrabifreið til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem hafi flutt þá á spítala.