Á morgun laugardag troða söngkonan Soffía Björg Óðinsdóttir og Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari upp á tónleikaröðinni Dægurflugur í hádeginu á Borgarbókasafninu. Flutt verða þekktir slagarar og lög úr smiðju Neil Young, Emilíönu Torrini, Sinead O’Connor, Leonard Cohen, John Prine og annarra stórstjarna sem höfðu mikil áhrif á Soffíu í upphafi söngferils hennar.
Dægurflugur í hádeginu er tónleikaröð sem Borgarbókasafnið stendur fyrir í samstarfi við Leif. Borgarbúum gefst þar tækifæri til að njóta góðrar tónlistar í flutningi margra okkar helstu tónlistarflytjenda og spjalla við þá að tónleikum loknum. Tónleikarnir verða að þessu sinni helgaðir sveitasöngvum.
Tónleikarnir fara fram á Borgarbókasafninu Spönginni laugardaginn 15. nóvember kl. 13:15-14:00
Frítt er inn á tónleikana. Öll hjartanlega velkomin.
Fjölhæft tónlistarfólk
Soffía Björg, sem er sveitastúlka úr Borgarfirðinum, ber marga hatta en hún starfar sem tónlistarkona, laga- og textahöfundur, gítarleikari og söngkona. Hún stundaði tónlistarnám við Söngskólann í Reykjavík, FÍH og Listaháskóla Íslands og hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi, komið fram með eigin hljómsveitum og annarra og tekið að sér fjölbreytt verkefni, jafnt sem tónsmiður og flytjandi.
Leifur er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar og kontrabassaleikari að mennt. Auk þess að hafa verið virkur í hljómsveitastarfi hefur Leifur skrifað og flutt eigin tónlist innan lands sem utan, gert margmiðlunarverkefni tengd tónlist og spuna, unnið að hljóðupptökum og nótnabókaútgáfu, svo fátt eitt sé nefnt.