

Gervigreind og sjálfvirkni í fjarfundalausnum var alls ráðandi á morgunverðarfundi OK og kínverska tæknifyrirtækisins Yealink sem haldinn var í gærmorgun. Þar fengu viðskiptavinir OK tækifæri til að sjá, upplifa og prófa nýjustu lausnirnar, allt frá næstu kynslóð fundakerfa til spánýrra hljóð- og myndlausna.
Lucian Liu, frá Yealink, sagði meðal annars frá fjórðu kynslóð fundakerfa, þar sem gervigreind er grunnstoð allrar vinnslu. Þá var sagt frá nýjum MeetingDisplay upplýsingaskjám, sem hugsaðir eru fyrir fyrirtæki sem vilja uppfæra fundarherbergin yfir í aukna sjálfvirkni. Einnig má nefna SkySound, sem er nýr hljóðbúnaður fyrir stærri fundarherbergi og sali og að endingu MeetingBoard PRO, þar sem lögð er áhersla á gagnvirkni á fundum.

„OK er leiðandi í sölu á Yealink lausnum á Íslandi og hluti af okkar vegferð er að sýna viðskiptavinum okkar það sem er mest spennandi frá þessum öfluga framleiðanda hverju sinni. Yealink er í fararbroddi á heimsvísu í hljóð- og myndlausnum og stendur í fremstu röð þegar kemur að nýjungum. Við hjá OK erum gríðarlega stolt af þessu góða samstarfi og hlökkum til að þétta það enn frekar, á komandi árum,“ segir Gísli Þorsteinsson, forstöðumaður Notendalausna hjá OK.





