
Pilturinn sem um ræðir er búsettur í Fairfax í Ohio en hann notaði meðal annars gervigreindarforritið ChatGTP til að skipuleggja ódæðið. Fórnarlamb hans var hin 64 ára gamla Sheila Tenpenny sem var nágranni piltsins.
Í frétt Cincinnati Enquirer kemur fram að pilturinn, sem ekki er nafngreindur sökum ungs aldurs, hafi látið til skarar skríða í febrúar síðastliðnum þegar hann var enn þrettán ára.
Að sögn saksóknara sló hann inn í ChatGTP og Google leitarorð á borð við: „Hvernig á að velja hið fullkomna fórnarlamb?“, „hvernig á að kyrkja einhvern?“ og „hvernig á að forðast það að lögregla nái manni?“ Þá leitaði hann ráða um það hvernig á að bera sig að í yfirheyrslum hjá lögreglu.
Pilturinn játaði sök í málinu og samkvæmt samkomulagi við saksóknara þarf hann að dvelja í fangelsi fyrir ungmenni til 21 árs aldurs.
Fyrir dómi kom fram að pilturinn hafi einnig rætt ódæðisverk sitt á netinu þar sem hann lýsti því yfir að Sheila hefði „barist fyrir lífi sínu“. Þessi angi málsins er enn til rannsóknar hjá lögreglu og leitar hún enn að fólki sem hann var í samskiptum við.
Að sögn lögreglu barðist Sheila vissulega fyrir lífi sínu því henni tókst að klóra piltinn og rífa úr honum hár sem lögregla sendi í DNA-rannsókn. Hann var handtekinn tíu dögum eftir að bróðir Sheilu fann hana látna á heimili hennar með kodda yfir andlitinu. Talið er að hann hafi brotist inn til hennar um miðja nótt og ráðist á hana í svefni.
Aðstandendur Sheilu komu fyrir dóminn og lýstu henni sem yndislegri manneskju sem verður sárt saknað. Sögðu þeir að pilturinn hafi sennilega valið hana þar sem hann taldi að hennar yrði ekki saknað.