
Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann flutti opnunarræðu þáttar síns í gær. Þar tilkynnti hann áhorfendum að hans besti vinur og samstarfsfélagi til margra ára væri látinn.
Cleto Escobedo III fór fyrir húsbandi þáttanna, sextettnum Cleto and the Cletones. Þetta vita flestir sem hafa horft á þættina en ekki allir hafa áttað sig á að Cleto og Jimmy ólust upp saman í Las Vegas. Þeir voru aðeins 9 ára gamlir þegar þeir urðu bestu vinir og þegar Jimmy Kimmel fékk stóra tækifærið í sjónvarpinu krafðist hann þess að Cleto fengi að vera með honum. Þannig fengu vinirnir að verja enn meiri tíma saman. Kimmel tilkynnti áhorfendum að hann ætlaði að taka sér nokkra daga leyfi til að syrgja fallinn vin.
„Við erum búin að vera í loftinu í næstum 23 ár og ég hef þurft að flytja erfiðar einræður á þeim tíma. En þetta er ein sú erfiðasta því seint í gærkvöldi, snemma í morgun, misstum við einstakan félaga langt fyrir aldur fram. Og mig langar að segja ykkur frá honum, ef ykkur er sama.“
Jimmy rakti að hann og Cleto hafi alist upp í sama nágrenni í Las Vegas. „Við urðum vinir og ekki bara venjulegir vinir. Við vorum 24/7: Mamma, gerðu það leyfðu mér að gista“ vinir. Eitt sumarið gisti ég heima hjá Escobedo 33 nætur í röð. Í alvöru. Mamma lét mig krjúpa og grátbiðja um að fá að gista hjá honum sem ég gerði glöðu geði, því okkur leiddist aldrei. Við höfðum alltaf eitthvað fyrir stafni.“
Þeir félagarnir hafi verið uppátækjasamir sem börn og meðal annars stundað það að hrekkja nágranna sína og fara í gamnislag. Spjallþáttastjórnandinn segir að Cleto hafi verið villtur sem ungur maður en seinna varð hann mikill fjölskyldumaður og sannur vinur vina sinna.
„Við áttum svo mörg ævintýri. Við hlógum svo mikið. Við áttum okkar eigið tungumál sem nánast enginn annar gat skilið. Við þurftum ekki að segja neitt.“
Jimmy segir að þegar honum bauðst að byrja með þættina sína hafi hann strax stungið upp á því að Cleto færi fyrir húsbandinu. Ekki bara það heldur vildi hann að faðir Cleto fengi að vera með. Faðir Cleto var tónlistarmaður á sjöunda áratug síðustu aldar og segir Jimmy það ómetanlegt að hafa fengið hann til að taka aftur upp þráðinn með syni sínum.
Jimmy hefur einnig birt færslu á Instagram þar sem hann minnist vinar síns.
„Að kalla þetta hjartasorg nær ekki utan um þetta. Við Cleto höfum verið óaðskiljanlegir síðan ég var 9 ára. Sú staðreynd að við fengum að vinna saman á hverjum degi er draumur sem hvorugan okkar gat órað fyrir að myndi rætast. Ræktið vináttu ykkar og biðjið fyrir eiginkonu, börnum og foreldrum Cletos.“