

Dagur Örn Fjeldsted kantmaður Breiðabliks snýr aftur til félagsins eftir lán hjá FH í sumar, hann var í nokkuð stóru hlutverki í Kaplakrika.
Fjallað var um málið í Þungavigtinni en Kristján Óli Sigurðsson fósturfaðir hans sagði frá þessu.
Þar kom fram að FH hefði getað keypt Dag fyrir ákveðna upphæð en ekki haft efni á því á þessu augnabliki.
„Nei þeir kaupa hann ekki, samningurinn rann út um mánaðamótin. Þeir gátu keypt hann fyrir 1. nóvember,“ sagði Kristján Óli í Þungavigtinni.
Kristján segir að FH hafi ekki getað borgað þessa upphæð sem samið var um þegar lánið fór í gegn.
„Þeir hafa ekki efni á því. Það var X tala sem þeir þurftu að borga sem þeir gátu ekki borgað núna.“