
Laos er landlukt land í suðausturhluta Asíu, á milli Víetnam og Taílands, og hefur það notið vaxandi vinsælda meðal ferðamanna á undanförnum árum. Samkvæmt opinberum tölum fjölgaði ferðamönnum úr 1,3 milljónum árið 2022 í 3,4 milljónir árið 2023 og hefur þeim haldið áfram að fjölga síðan þá.
Foreldrar tveggja ungmenna, sem létust eftir að hafa drukkið metanólmengað áfengi, hafa nú hvatt fólk til að ferðast ekki til Laos. Þessi aðvörun kemur aðeins örfáum dögum eftir að greint var frá óhugnanlegu andláti bandarískra feðga sem urðu fyrir árás asískra risageitunga.
Vinkonurnar Holly Morton-Bowles og Bianca Jones, báðar 19 ára frá Ástralíu, létust í nóvember 2024 í Vang Vieng, vinsælu ferðamannasvæði í Laos, ásamt fjórum öðrum ferðamönnum sem dvöldu á sama gistiheimili.
Fjölskyldur stúlknanna saka yfirvöld í Laos um spillingu og að hafa neitað að rannsaka málið. Hvetja þær aðra Ástrali til að forðast landið.
„Von okkar er að Ástralar taki þetta land af listanum yfir þau lönd sem þeir vilja heimsækja. Líf þitt er einskis virði þarna og við höfum séð það frá fyrstu hendi. Það eru engin merki um að nokkur rannsókn sé í gangi,“ sögðu Shaun Bowles og Samantha Morton í viðtali við Herald Sun á dögunum.
Í febrúar kom fram að stjórnvöld í Laos hefðu hafnað beiðnum um fundi með fjölskyldum fórnarlamba eitrunaratburðarins frá síðasta ári.
Viðtalið við foreldrana birtist í aðdraganda þess að eitt ár var liðið frá dauðsföllunum. Um svipað leyti var greint frá dauðsfalli bandarísku feðgana sem voru stungnir meira en hundrað sinnum af asískum risageitungum.
Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur sett 2. stigs viðvörun vegna ferðalaga til Laos, sem þýðir að ferðamenn ættu að sýna aukna aðgæslu. Þar er varað við borgaralegum óróa í sumum landshlutum og hættu vegna sprengja sem ekki hafa sprungið við landamæri Víetnam. Í frétt New York Post kemur fram að einnig sé varað við hættu vegna þjófa, ræningja og eiturlyfjasmyglara í norðurhluta landsins skammt frá landamærum Mjanmar.