Breski tónlistarmaðurinn Robbie Williams greinir frá því að móðir hans þekki hann ekki lengur vegna heilabilunar. Faðir hans og tengdamóðir séu einnig veik.
Breska blaðið The Daily Star greinir frá þessu.
Hinn 51 árs gamli poppari Robbie Williams sagði frá því á tónleikum í Þýskalandi að móðir hans, Janet, þekki hann ekki lengur. Janet er 84 ára gömul og þjáist af heilabilun.
„Móðir mín er með heilabilun og hún veit ekki hver ég er lengur,“ sagði Robbie, sem ferðast nú um Evrópu á Britpop túrnum. „Hún veit ekki hvar hún er lengur.“
Þetta voru ekki einu heilbrigðisvandamál fjölskyldunnar sem poppstjarnan deildi með aðdáendum sínum. En hann greindi einnig frá því að faðir hans, Peter, þjáist af Parkinson´s taugahrörnunarsjúkdómnum. Þá sé tengdamóðir hans að kljást við marga sjúkdóma þessi misserin.
„Pabbi minn er með Parkinson´s og getur ekki farið út úr húsi,“ sagði Robbie.
En Robbie sagði aðdáendum sínum ekki aðeins frá hörmungum tengdum foreldrum sínum. Hann lýsti einnig fallegum minningum.
Meðal annars sagði hann frá því að faðir hans hefði margsinnis komið upp á svið til hans þegar hann var að koma fram. Gamli maðurinn hefði heillað áhorfendur upp úr skónum. Eftir það hefði hann farið baksviðs og fengið sér glas af rauðvíni. Því miður séu þessir dagar þó löngu liðnir.
Robbie sagðist vera mjög náinn tengdamóður sinni og liti mjög upp til hennar.
„Hún er með lúpus, Parkinson´s veiki og krabbamein,“ sagði Robbie. „Hún er hugrakkasta dama sem til er og hún er að berjast og berjast og berjast.“
Sagði Robbie að honum fyndist undarlegt að vera að takast á við þessi vandamál innan fjölskyldunnar nú þegar hann sé orðinn 51 árs gamall.
„Þetta er skrýtinn staður til að vera á, þessi staður sem við erum allt í einu komin á, 51 árs, það er mjög skrýtið að vera orðinn fullorðinn,“ sagði hann. „Ég er ekki reiðubúinn fyrir þetta.“