Þetta leit út eins og umferðarslys og ekkert sérstaklega óvenjulegt. Bílstjóri á Toyota Camry hafið misst stjórn á bíl sínum og ekið á vegrið á hraðbraut í Fort Worth í Texas, Bandaríkjunum. Þetta var árið 2020.
Þegar hugað var að ökumanni kom í ljós að hann, eða réttara sagt hún, var látin. En hún hafði ekki látist í árekstrinum. Hún hafði verið skotin í höfuðið með Glock skammbyssu. Hin látna var Julia Ann Gregor, sjötug þriggja barna amma frá Benbrook. Ljóst var að bíllinn hafði orðið stjórnlaus eftir að Julia var skotin í höfuðið og þess vegna lenti hann á vegriðinu.
Við skoðun í efni úr eftirlitsmyndavélum beindist athygli lögreglu að hvítum jeppa sem ekið hafði verið hratt frá vettvangi eftir að Toyota Juliu lenti á vegriðinu. Ökumaðurinn, hinn 34 ára gamli Jeffrey Watson, var kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu en var ekki handtekinn.
Jeffrey virtist í fyrstu ekki hafa hugmynd um hvers vegna lögregla vildi tala við hann og því síður sagðist hann vita eitthvað um dauða sjötugrar konu. Lögreglumaður nálgaðist hann í vinsemd og fór yfir atvikið. Smám saman brotnaði Jeffrey saman og játaði. En hann sagðist ekki hafa myrt konuna að yfirlögðu ráði heldur hefði verið um slys að ræða.
Jeffrey sagðist hafa verið í afar slæmu andlegu ástandi þennan dag vegna vandamála heima fyrir. Sonur hans var undir smásjá barnaverndar eftir íkveikjutilraun. Sagði Jeffrey að drengurinn hefði aldrei verið til vandræða þar til hann nýlega komst í vondan félagsskap. Jeffrey og kona hans höfðu rifist heiftarlega vegna þessara mála.
Jeffrey hafði verið í vinnuferð þennan dag ásamt félaga sínum sem sat í farþegasætinu frammi í. Þeir störfuðu fyrir fyrirtæki sem sé um uppsetningu og viðhald öryggismyndavélabúnaðar.
Þegar Toyota Camry bíllinn áðurnefndi svínaði fyrir hann dró hann fram Glock skammbyssu sína og ákvað að skjóta á hjólbarða bílsins. Hann sagðist ekki hafa séð ökumanninn og ekki hafa haft hugmynd hver það var, allra síst grunaði hann að þetta væri eldri kona.
„Ég er ekki illmenni,“ sagði Jeffrey hvað eftir annað og sagði að þetta hefði ekki verið með vilja gert. Honum var þá bent á að hann ætti að gera sér grein fyrir því að ef hann skyti úr byssu á ferð gæti skotið hæglega lent í manneskju. Hann sagðist gera sér grein fyrir því.
Byssan fannst við húsleit á háaloftinu á heimili Jeffreys, rétt eins og hann hafði sagt lögreglu frá.
Jeffrey játaði á sig glæpinn fyrir dómi og gerði dómsátt við saksóknara. Var hann í nóvember árið 2022 dæmdur í 20 ára fangelsi.
Í myndbandinu hér að neðan má sjá lögregluyfirheyrsli yfir Jeffrey Watson auk þess sem málavextir eru raktir.