Afi Juan Mata sagði leikmanninum að koma sér burt frá Manchester United á sínum tíma er Jose Mourinho var ráðinn til starfa hjá félaginu.
Mourinho og Mata unnu áður saman hjá Chelsea en sá portúgalski ákvað þá að selja Mata til United og virtist ekki hafa not fyrir hann í Lundúnum.
Ekki of löngu seinna voru þeir sameinaðir í Manchester og fékk Mata að spila töluvert undir stjórn Mourinho á tíma hans þar.
,,Fyrsta símtalið sem ég fékk var frá fjölskyldunni eða afa mínum sem sagði mér að fara og það strax og spurði hvað myndi gerast næst,“ sagði Mata.
,,Ég svaraði og sagðist ætla að sjá hvernig hlutirnir myndu þróast, það voru engin vandamál á milli mín og hans.“
,,Þetta er eitt það sem ég er mest stoltur af á mínum ferli, að hafa verið áfram. Ég neitaði að fara og vildi sýna að ég gæti spilað hans bolta og ég gerði það.“