Það er nokkuð ljóst að Jadon Sancho þarf að leita sér að nýjum vinnuveitendum í sumar og er hann orðaður við tyrkneska félagið Fenerbahce í fjölmiðlum þar í landi í dag.
Sancho er á láni hjá Chelsea frá Manchester United og er kaupskylda í lánssamningnum, en Chelsea hyggst komast hjá því að nýta sér hana með því að greiða fyrir það 5 milljónir punda.
Ljóst er að enski kantmaðurinn á enga framtíð hjá United, sem keypti hann frá Dortmund á 73 milljónir punda 2021. Stóð hann aldrei undir þeim verðmiða og var lánaður aftur til Dortmund í fyrra, þar sem hann þótti standa sig vel, en svo til Chelsea síðasta haust þar sem hann hefur lítið getað.
Jose Mourinho stýrir Fenerbahce og gæti félagið fengið Sancho til sín í sumar, en hann var einnig orðaður við félagið síðasta sumar.
United vill fá tæpar 20 milljónir punda fyrir Sancho og ljóst að félagið mun því tapa hressilega á honum.