

Ivan Toney er kominn aftur á æfingar með Al-Ahli eftir að hafa verið handtekinn um helgina, grunaður um líkamsárás á skemmtistað í London.
Atvikið á að hafa átt sér stað á 100 Wardour St í Soho, þar sem aðdáandi reyndi að taka sjálfu með enska landsliðsmanninum. Toney, 29 ára, á að hafa brugðist illa við og samkvæmt vitnum á hann að hafa skallað manninn.
Framherjinn var handtekinn aðfaranótt laugardags, grunaður um tvær líkamsárásir og óspektir, en var síðar látinn laus gegn tryggingu.

Segir í enskum miðlum að Toney hafi óttast að maðurinn ætlaði að ræna sig þar sem hann var með dýra skartgripi og dýrt úr á hendinni.
Hann hélt strax aftur til Sádi-Arabíu og hefur nú tekið þátt í æfingum með Al-Ahli á ný.
Félagið birti myndir af Toney og liðsfélögum hans þar sem þeir fóru í gegnum fjölbreyttar æfingar á Mokhtar El-Tetsh vellinum á mánudag. Leikmennirnir þurftu meðal annars að hlaupa í miklum hita með súrefnisgrímur, undir yfirskriftinni: „Andardrátt fyrir andardrátt… við lyftum okkur upp.“