

Yfirmenn innan FIFA voru gjörsamlega ómeðvitaðir um áform Gianni Infantino forseta sambandsins um að veita Donald Trump sérstök verðlaun á drættinum fyrir HM 2026, sem fer fram í Washington DC á föstudag.
FIFA tilkynnti 5. nóvember að ný verðlaun, Friðarverðlaun FIFA, yrðu veitt þeim sem hafa sameinað fólk um allan heim með frið að vopni. Infantino ætlar að afhenda fyrsta verðlaunagripinn á sviðinu fyrir dráttinn.
Samkvæmt The Athletic komu þessi áform flestum innan FIFA í opna skjöldu. Enginn hinna 37 fulltrúa í stjórn FIFA, þar á meðal átta varaforsetar og 28 kjörnir ráðamenn, áttu að hafa vitað af verðlaununum fyrir tilkynningu.
Talið er líklegt að Trump, sem missti af Nóbelsverðlaununum í ár og hefur fullyrt að hann hafi lokið átta stríðum frá endurkomu sinni í embætti, fái fyrstu verðlaunin.
Infantino, sem hefur lýst Trump sem nánum vini, vildi lítið gefa upp þegar hann var spurður hvort forsetinn væri líklegur sigurvegari.