

Sjálfstæða eftirlitsstofnunin IOPC hefur varið 13 árum og 150 milljónum punda í rannsókn á harmleiknum árið 1989 þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool létust í bikarleik á Hillsborough.
Niðurstaðan sýnir að 12 lögreglumenn hefðu staðið frammi fyrir alvarlegum áminningum fyrir grundvallar mistök á leikdegi og tilraunir til að kenna stuðningsmönnum um í kjölfarið.
IOPC fann einnig 92 tilvik þar sem kvartanir gegn lögreglu þóttu eiga rétt á sér. Enginn verður þó dreginn til ábyrgðar þar sem lögreglumennirnir voru allir hættir störfum áður en rannsókn hófst.
Á sínum tíma hélt lögreglan því fram að stuðningsmenn Liverpool hefðu komið seint, drukknir og án miða, ásakanir sem hafa síðan verið afsannaðar.
Í enduruppteknu réttarhöldunum 2016 var staðfest að fórnarlömbin voru drepin með ólögmætum hætti.
Aðstandendur segja niðurstöðuna þó aðeins staðfesta sannleikann, ekki skila réttlæti. „Enginn verður dreginn til ábyrgðar,“ sagði lögmaður fjölskyldna. „Kerfið hefur svikið þau.“