
James Trafford er orðaður við Newcastle í kjölfar fregna um að hann vilji fara frá Manchester City.
Markvörðurinn gekk aftur í raðir City frá Burnley í sumar og taldi sig vera að fá aðalmarkvarðastöðuna. Skömmu síðar var Gianluigi Donnarumma hins vegar keyptur svo það breyttist.
Við þetta er Trafford ósáttur og vill hann burt í janúar, eins og Daily Mail greindi frá í morgun. Í kjölfarið hefur Newcastle verið nefnt sem hugsanlegur áfangastaður, en félagið reyndi einnig við Trafford í sumar.
Þess má geta að Stefan Ortega, önnur varaskeifa City, er einnig sagður vilja leita á önnur mið í janúar.