
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, fór yfir meiðslavandræði liðsins á blaðmannafundi í aðdraganda leiksins við Brentford í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Arsenal er með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar en vantar þó lykilmenn. Til að mynda eru báðir aðalmiðverðir liðsins, William Saliba og Gabriel frá.
„Þetta snýst um nokkra daga hjá William Saliba og það sama má segja um Leandro Trossard,“ sagði Arteta, en Belginn missti af síðasta leik við Chelsea vegna meiðsla.
„Meiðsli Saliba eru mjög furðuleg, en vonandi verður hann aðeins stuttan tíma frá,“ sagði Arteta enn fremur, áður en hann var spurður út í Kai Havertz, sem hefur verið frá nær allt tímabilið.
„Það eru enn nokkrar vikur í Havertz. Okkur langar svo að fá hann aftur sem fyrst, ég elska hvað hann kemur með að borðinu. Ég sé að það tekur mikið á hann að geta ekki verið með.“
Gabriel verður frá í þó nokkurn tíma. „Honum gengur mjög vel í endurhæfingunni en það eru einhverjar vikur í hann,“ sagði Arteta.