

Wrexham, sem er í eigu Hollywood-leikaranna Ryan Reynolds og Rob McElhenney, hefur fengið nærri 18 milljónir punda í opinbert fjármagn til að styðja við endurbætur á heimavelli félagsins.
Félagið fékk upphaflega 3,8 milljónir punda frá sveitarstjórn Wrexham ári eftir að eigendurnir tóku við félaginu árið 2021.
Samkvæmt The Guardian hefur Wrexham nú fengið viðbótarfjárveitingu upp á 14 milljónir punda, sem var samþykkt í september, til að hraða uppbyggingu Racecourse Ground.

Markmiðið er að reisa nýjan Kop-stúkuhluta ásamt því að bæta lýsingu og grasvöllinn. Fjármagnið kemur í gegnum miðlægan styrk frá velsku ríkisstjórninni og var úthlutað af sveitarstjórn Wrexham.
Vonast er til að endurbæturnar geri Wrexham kleift að halda fleiri landsleiki á vellinum og auka mikilvægi hans á landsvísu.