

Hörður Snævar Jónsson fór með Helga Fannari Sigurðssyni yfir fréttir vikunnar í Íþróttavikunni hér á 433.is.
Birnir Snær Ingason gekk í raðir Stjörnunnar frá KA á dögunum og er talið að hann fái vel greitt fyrir sín störf í Garðabænum, enda ein skærasta stjarna deildarinnar.
„Þetta er hrikalegur liðsstyrkur fyrir Stjörnuna. Hann er einn af fimm bestu leikmönnum deildarinnar, ég held við getum alveg leyft okkur að tala um hann þannig. Hann er að fara inn í sterkt Stjörnulið með ógnvænlega breidd í fremstu stöðum. Þeir eru með Örvar Eggertsson, Benedikt Waren og nú Birni sem allir hafa spilað best sem kantmenn. Það er ljóst að einn þeirra þarf að sitja á bekknum,“ sagði Hörður.
Stjarnan hafnaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar og náði þar með Evrópusæti. Markmiðið er væntanlega að taka næsta skref.
„Við sjáum hvað Víkingar og Breiðablik hafa gert undanfarin ár, eru með alvöru leikmenn í breiddinni. Svo Stjarnan er að búa sér til alvöru breidd, sem þeir byrjuðu á í félagaskiptaglugganum í sumar og það eru væntanlega fleiri á leiðinni. Menn eru stórhuga í Garðabænum og gera væntanlega þá kröfu að liðið berjist um Íslandsmeistaratitilinn allt til loka,“ sagði Hörður.
Þátturinn í heild er í spilaranum.