

Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni hér á 433.is.
Vuk Oskar Dimitrijevic gekk í raðir Fram fyrir síðustu leiktíð frá FH. Lengi höfðu menn beðið eftir að sjá hann springa út í Bestu deildinni og það gerði hann sannarlega, þó meiðsli hafi sett strik í reikninginn síðari hluta sumars.
„Hann var frábær áður en hann meiddist. Hann er með smá frjálsræði í þessu 3-5-2 kerfi okkar, er auðvitað vanur að spila á vinstri væng í 4-3-3 og kötta inn á völlinn. Hann fékk frjálsræði og vinnuskyldan kannski öðruvísi en hann er vanur.
Hann sprakk út og það var leikgleði í honum. Honum leið vel og það var gaman, það er oft lykilatriði í því að fá það besta út úr mönnum, að leyfa þeim að njóta sín innan vissra marka. Það þarf að vera smá regla, hlaupa til baka og verjast og gera þessa skítavinnu sem allir þurfa að gera. En svo þegar þú ert kominn framar á völlinn er meira frjálsræði,“ sagði Rúnar um Vuk.
Rúnar benti á að Vuk og Haraldur Einar Ásgrímsson nái vel saman vinstra megin. „Hann og Halli voru auðvitað saman í FH og kunna rosalega vel á hvorn annan. Það hjálpaði Vuk líka.“
Viðtalið í heild er í þættinum, sem má nálgast í spilaranum hér ofar, sem og á helstu hlaðvarpsveitum.