Gary Martin mun að öllum líkindum spila sinn síðasta leik í íslenskum fótbolta um næstu helgi með Víkingi Ólafsvík.
„Eftir meira en tíu ár er komið að því að flytja aftur til Englands og spila þar í vetur,“ segir Gary Martin á Facebook síðu sinni.
„Það gæti verið að ég komi á láni næsta sumar eða að þetta sé kveðjustund mín.“
Gary Martin er 34 ára gamall en hann leikur í dag með Víkingi Ólafsvík og gæti liðið komist upp í Lengjudeildina í síðustu umferðinni.
Gary kom fyrst til Íslands sumarið 2010 og samdi við ÍA en þaðan fór hann í KR. Gary lék síðan með Víkingi, Val, ÍBV, Selfoss og Ólafsvík.
Á þessum 14 árum fór Gary einnig í atvinnumennsku og lék með bæði Lilleström og Lokeren.
Hann þakkar sérstakla ÍA, KR og Víkingi Ólafsvík fyrir. „ÍA fyrir að gefa mér fyrsta tækifærið þegar ég var 19 ára, KR fyrir að gefa mér tækifæri til að spila fyrir stærsta félagið á Íslandi og vinna allt þar. Og Víkingi Ólafsvík fyrir að fá mig til að njóta fótboltans aftur.“
Gary Martin vann efstu deild í tvígang, bikarinn tvisvar og varð markahæsti leikmaður efstu deildar í tvígang.
„Þetta hefði átt að verða miklu betra en hefði getað orðið miklu verra,“ segir Gary.