Emmanuel Petit, fyrrum leikmaður Chelsea, er handviss um að Jadon Sancho hafi aðeins skrifað undir hjá félaginu vegna peninga.
Sancho var lánaður til Chelsea frá Manchester United í sumarglugganum og mun félagið svo kaupa hann næsta sumar.
Petit er viss um að Sancho sé aðeins að horfa í bankabókina en Chelsea borgar leikmönnum sínum ansi góð laun.
,,Staðan í dag er ekki bara félaginu að kenna, þetta snýst líka um leikmennina. Hvernig getur Sancho sannað sig hjá Chelsea eftir það sem gerðist hjá United?“ sagði Petit.
,,Hann var lánaður til Dortmund og fór aftur til United en núna semur hann vil Chelsea sem er með 40 leikmenn eða svo og hann er bara einn af þeim.“
,,Er ekki komið gott af því að færa sig um lið? Að tapa sjálfstraustinu? Nú er hann hjá félagi sem sýnir engan stöðugleika og ná ekki í úrslit. Ef hann er ekki þarna fyrir peningana þá hvað annað?“