Bruno Fernandes segir stöðuna svarta hjá Manchester United og það að enda í Meistaradeildarsæti væri stóri sigur tímabilsins.
United endaði í áttunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og hefur byrjað hræðilega á þessu tímabili.
Liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð og pressa er komin á liðið. „Ég er mjög meðvitaður um það að United getur ekki unnið ensku úrvalsdeildina,“ sagði Bruno í viðtali í Portúgal þar sem hann er mættur núna í landsleiki.
„Við erum með það markmið að reyna að komast í topp fjóra. Reyna að ná inn í Meistaradeildina.“
„Það er mikið sem við þurfum að bæta en draumur minn er einn daginn að geta unnið deildina.“
United tapaði 0-3 gegn Liverpool á sunnudag og var Bruno ásamt fleirum ansi slakur þann daginn.