Samkvæmt heimildum 433.is er líklegt að Aron Einar Gunnarsson hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Þór í bili.
Aron samdi við Þór á dögunum og hefur spilað síðustu leiki með liðinu í Lengjudeildinni.
Frá upphafi hefur verið planið að Aron fari á láni erlendis og verði þar í vetur, hann mætir svo aftur heim næsta vor og heldur áfram að spila með uppeldisfélaginu.
Aron er 35 ára gamall og hefur verið sterklega orðaður við Kortrijk í Belgíu þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins.
Þá hafa lið í Katar sýnt því áhuga á að semja við Aron sem lék lengi vel með Al-Arabi þar í landi og hefur gott orðspor í boltanum þar eftir dvöl sína þar.
Aron Einar hefur nokkra daga til að semja við lið úti og búast forráðamenn Þórs við því að Aron fari út á allra næstu dögum.