Það var í boði fyrir sóknarmanninn Marc Guiu að spila með Barcelona í vetur en frá þessu greinir Deco, yfirmaður knattspyrnumála félagsins.
Guiu ákvað að semja við Chelsea í sumarglugganum en hann kostaði enska félagið aðeins sex milljónir evra.
Barcelona bauð framherjanum góða launahækkun og nýjan samning en hann taldi verkefnið vera meira spennandi í London.
,,Chelsea borgaði kaupákvæðið og hann ákvað að fara. Hann var með gamlan samning og kostaði sex milljónir evra,“ sagði Deco en Guiu er aðeins 18 ára gamall.
,,Hann fékk stórt samningstilboð frá okkur og var boðið að vera með í spennandi verkefni en hann tók þá ákvörðun að fara annað.“
,,Leikmaðurinn ákvað að samþykkja boð Chelsea. Við buðum honum að vera áfram en hann neitaði.“