Ray Parlour, fyrrum leikmaður Arsenal, er með ráð fyrir leikmann liðsins sem er fastur á bekknum þessa dagana.
Leikmaðurinn umtalaði er Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, en hann er á eftir David Raya í goggunarröðinni.
Parlour telur að Ramsdale kveðji Arsenal fyrir fullt og allt í sumar og mun leitast eftir því að fá tækifæri sem aðalmarkvörður annars staðar.
,,Þetta verður erfitt ár fyrir Aaron. Hann er í enska landsliðshópnum og dauðlangar að fá tækifæri þar,“ sagði Parlour.
,,Hann vill spila fótbolta, hann veit hvernig það er að spila í hverri viku fyrir Arsenal. Ég held að það sé kominn tími á að taka stóra ákvörðun sem þjálfari liðsins.“
,,Aaron þarf einnig að taka stóra ákvörðun um hvað hann gerir, hvort hann haldi sig þarna og bíði eftir tækifærinu eða fari annað og sanni sitt gildi. Ég held að hann fari því hann vill fá að spila í hverri viku.“