Fyrrum úrvalsdeildarleikmaðurinn Adam Le Fondre hefur skrifað undir samning í ensku utandeildinni.
Þetta hefur lið FC United staðfest en það lið er staðsett í Manchester og er í sjöundu efstu deild.
Le Fondre var síðast í skosku úrvalsdeildinni með Hibernian og skoraði þar fimm mörk í 23 deildarleikjum en tók gríðarlegt skref niður á við með þessum skiptum.
Le Fondre á að baki leiki í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði 12 deildarmörk með Reading 2012-2013 í 34 leikjum.
Le Fondre lék mest megnis í næst efstu deild Englands sem og í öðrum neðri deildum og reyndi einnig fyrir sér í Ástralíu þar sem hann raðaði inn mörkum.
Englendingurinn er orðinn 37 ára gamall og virðist vera kominn á endastöð með þessum skiptum til Manchester.