Wayne Rooney, stjóri Plymouth, var að vonum hundfúll eftir leik sinna manna gegn Sheffield Wednesday í vikunni.
Þetta var fyrsti keppnisleikur Rooney sem stjóri Plymouth en liðið tapaði sannfærandi 4-0 á útivelli.
Guðlaugur Victor Pálsson er leikmaður Plymouth og lék í hægri bakverði en liðið leikur í næst efstu deild Englands.
,,Ég tel að úrslitin hafi verið sanngjörn. Það versta við spilamennskuna var hvernig við reyndum að vinna fyrsta boltann, seinni boltann og að koma í veg fyrir fyrirgjafir,“ sagði Rooney.
,,Ég held að þeir hafi skorað fjögur mörk úr fjórum fyrirgjöfum. Við vorum ekki með einföldu hlutina á hreinu svo það er gríðarlega svekkjandi.“
,,Við spiluðum með ekkert sjálfstraust í þessum leik, sjálfstraust sem hefur verið til staðar á undirbúningstímabilinu. Við réðum ekki við lætin í stúkunni til að byrja með og leyfðum Sheffield að keyra yfir okkur.“