Jose Mourinho stjóri Fenerbache hjólar fast í Pep Guardiola stjóra Manchester City eftir að hann fór að ræða hann í vikunni.
Guardiola fór að ræða um Mourinho í vikunni eftir að hann var spurður út í hegðun sína og tala um sex titlana sem hann hefur unnið í ensku deildinni.
Mourinho var þekktur fyrir að minna fólk á að hann hefði unnið deildina þrisvar, Guardiola svaraði málinu þannig að hann væri búin að vinna tvöfalt fleiri titla en Mourinho.
Þetta fór ekki vel í Mourinho sem svaraði af krafti. „Guardiola fór að ræða mig í gær, hann hefur unnið sex og ég vann þrjá. Ég vann mína hins vegar heiðarlega,“ sagði Mourinho og lét svo vélina ganga.
„Ef ég tapaði, þá óska ég aðilanum til hamingju því hann var betri en ég. Ég vil ekki vinna titla með 150 ákærur hangandi yfir mér,“ sagði Mourinho.
Mourinho á þar við ákærurnar sem City er með á sér fyrir að brjóta reglur um fjármögnun félaga.