Uppistandarinn Jakob Birgisson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Age Hareide lét af störfum sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Hann hafði verið með liðið í um eitt og hálft ár og var nálægt því að koma því á EM síðasta vor.
„Hann er búinn að þjálfa Rosenborg, Malmö, danska landsliðið. Hann gerði fína hluti hér og ég held það sé ekkert mál fyrir hann að labba út úr þessu,“ sagði Hrafnkell í þættinum, en Hareide er reynslubolti sem á að baki farsælan feril.
„Ég á erfitt með að ímynda mér að það hugsi einhver illa til hans, þó einhverjir hafi verið brjálaðir af því að hann mætti ekki hingað á blaðamannafundi, kannski var það bara út af hnénu,“ sagði Jakob léttur í bragði áður en Hrafnkell tók til máls á ný.
„Hann spilaði fyrst og fremst skemmtilegan fótbolta. Leikirnir undir hans stjórn voru skemmtilegir, þó við værum stundum að fá of mikið af mörkum á okkur. Hann var líka með mikla virðingu frá leikmönnum.“
Umræðan í heild er í spilaranum.