Uppistandarinn Jakob Birgisson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Það var rætt um Manchester City í þættinum en það hefur hvorki gengið né rekið hjá liðinu undanfarið. Liðið missti á dögunum 3-0 stöðu í 3-3 gegn Feyenoord í Meistaradeildinni og þar áður hafði það tapað fimm leikjum í röð.
„Þetta er bara algjört hrun,“ sagði Helgi er umræðan um City hófst, en liðið hefur orðið Englandsmeistari undanfarin fjögur tímabil.
„Það er verið að koma þeim vel niður á jörðina. Núna er Guardiola að taka þann pól í hæðina að þetta sé bara frábært fyrir þá, að tapa og „suffera“ aðeins,“ sagði Hrafnkell.
Jakob tók þá til máls og velti hann fyrir sér hvort Guardiola geti snúið genginu við og rétt kútinn við að hætti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
„Þeir eru bara að taka Sjálfstæðisflokkinn á þetta. Bjarni er búinn að sækja sigrana þó þeir lendi í klandri. Það verður gaman að sjá hvort Bjarni sé að „Pep-a„“ yfir sig. Þetta er keimlíkt. Hann er með byssur þarna og fólk sem hefur verið að sigra í gegnum tíðina,“ sagði Jakob, en Bjarni vonast einmitt til að landa sigri í Alþingiskosnigum í kvöld eftir slaka niðurstöðu í könnunum lengi vel.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar