Gylfi Þór Sigurðsson hefur staðfest það að hann gæti verið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.
Gylfi ræddi við Fótbolta.net í kvöld eftir leik Vals og FH sem fór fram í Kaplakrika og lauk með 1-1 jafntefli.
Gylfi fékk tækifæri til að tryggja Val sigurinn en hann klikkaði á vítaspyrnu á 101. mínútu.
Miðjumaðurinn er orðinn 35 ára gamall en hann samdi við Val fyrr á þessu ári og verður til taks um næstu helgi.
Möguleiki er á að það verði síðasti leikur Gylfa en hann hefur þó ekki tekið endanlega ákvörðun um framhaldið.
„Ég veit ekki hvort að ég haldi áfram bara í fótbolta. Þetta gæti mögulega verið minn síðasti leikur næstu helgi. Ég veit ekki alveg hvað framhaldið ber í skauti sér,“ sagði Gylfi við Fótbolta.net.