Þrír aðilar með íslenskan ríkisborgararétt komast á lista Daily Mail yfir 20 mest spennandi knattspyrnumenn á Norðurlöndunum þessa stundina.
Orri Steinn Óskarsson framherji Real Sociedad raðar sér á listann en þessi tvítugi framherji hefur vakið verðskuldaða athygli.
Manchester City skoðaði að kaupa Orra í sumar en það var að lokum spænska félagið sem reiddi fram 3 milljarða og fékk Orra frá FCK í Danmörku.
Amin Chiakha, Orri Óskarsson, Hákon Haraldsson, Cole Campbell & Tobias Slotsager among the most interesting young players from the Nordic countries ⭐️👌 https://t.co/BuDkyoI60s
— Magnus Agnar Magnusson (@totalfl) October 17, 2024
Fyrrum samherji Orra í FCK, Hákon Arnar Haraldsson kemst einnig á listann en Hákon var seldur til Lille í Frakklandi fyrir rúmu ári síðan.
Hákon er 21 árs gamall og hefur vakið sérstaka athygli fyrir vaska framgöngu sína síðustu mánuði.
Þá er Cole Campbell leikmaður Borussia Dortmund á lista en hann á íslenska móður en faðir hans er frá Bandaríkjunum. Fréttir hafa borist þess efnis að Cole ætli sér að spila fyrir landslið Bandaríkjanna frekar en það íslenska.