Mario Balotelli er engum líkur en það er nafn sem flestir knattspyrnuaðdáendur ættu að kannast við.
Balotelli er í dag án félags en hann yfirgaf Tyrkland í sumar eftir dvöl hjá Adana Demirspor.
Allar líkur eru á að Balotelli sé á leið aftur í Serie A, efstu deild Ítalíu, en hann hefur leikið með liðum eins og Inter og AC Milan.
Balotelli ákvað að láta í sér heyra í vikunni en hann baunaði þar á vinsælan ‘streamer’ sem gagnrýndi afrek framherjans.
Um er að ræða tölvuleikjaspilara sem ber nafnið Enerix en hann vildi meina að Joel Pohjanpalo, leikmaður Venezia, væri betri leikmaður í dag en Balotelli.
,,Hvað í andskotanum ertu að segja?“ sagði Balotelli á móti og bætti við: ,,Bara því ég var ekki í Serie A? Þá telur það ekki’ Farðu til fjandans, þú og Serie A!“
,,Ég lofa því að ég mun taka yfir Serie A þegar ég sný aftur, ég ætla að rústa þessari deild.“
Balotelli er 34 ára gamall í dag en hann hefur komið víða við á ferlinum og var lengi vel á Englandi.