Jóhann Berg Guðmundsson ræddi við 433.is í kvöld eftir leik Íslands og Wales í Þjóðadeildinni.
Spilað var á Laugardalsvelli en Ísland kom til baka og jafnaði í 2-2 eftir að hafa fengið tvö mörk á sig í fyrri hálfleiknum.
,,Þetta er skrítin tilfinning að vera komnir í 2-0 undir en við sýnum frábæran karakter í að jafna í 2-2 og við fengum færin til að jafna í 2-2. Við fengum hættulegri færi en þeir í þessum leik en ef við ætlum að taka það jákvæða úr leiknum er það að koma til baka og sýna karakter eftir að hafa lent 2-0 undir,“ sagði Jóhann Berg.
,,Við getum ekki fengið svona mörk á okkur á svona leveli og einhvern veginn náðum við ekki pressu á boltann en þá þurfum við að vera klárir fyrir þessi hlaup fyrir aftan vörnina. Það kom betri pressa í seinni hálfleik og þeir komust ekki yfir miðju. Þetta var ekkert lélegt í fyrri en þessi tvö moment sem er nóg á þessu leveli.“
,,Logi kemur inn, frábær innkoma hjá honum. Hann er kannski svekktur að hafa ekki byrjað en hann sýndi gríðarlegan karakter að koma inn og breyta leiknum fyrir okkur.“
,,Við munum kippa honum niður á jörðina. Hann er frábær drengur og það er gaman að honum en hann nær sér niður á jörðina og verður klár á mánudaginn.“
Jóhann Berg fann aðeins til undir lok leiks en er nokkuð viss um að hann verði klár fyrir leikinn gegn Tyrkjum á mánudag.
,,Ég var aðeins stífur, ég var að taka einhverja hælsendingu sem ég á ekkert að vera að gera á þessum aldri og við sjáum til en vonandi verð ég klár á mánudaginn.“