Ítalskir fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á máli Alberts Guðmundssonar en það kemur í ljós í dag í héraðsdómi hvort hann verði sýknaður eða dæmdur sekur vegna ákæru um kynferðisbrot.
Málið var tekið fyrir í síðasta mánuði og verður dómur lesinn upp í dag. Albert er ákærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á konu í Reykjavík sumarið 2023.
Málið var fyrst fellt niður eftir rannsókn lögreglu en þeirri niðurstöðu var áfrýjað og þá ákvað saksóknari að leggja fram ákæru. Albert er mikið í sviðsljósinu á Ítalíu eftir frábæra byrjun hjá nýju félagi, Fiorentina.
„Hann bíður eftir niðurstöðu í Flórens þar sem hann og meðan annars faðir hans eru á staðnum. Dómurinn verður lesin upp klukkan 12:45 og ásamt leikmanninum er heil borg sem bíður eftir niðurstöðu,“ segir í frétt Gazzetta og þar er átt við Flórens.
Albert er strax orðin hetja í augum stuðningsmanna Fiorentina sem bíða og vona að hann verði sýknaður í málinu. Verði Albert dæmdur sekur er óvíst hversu lengi í viðbót hann getur spilað fyrir félagið sem fékk hann á láni frá Genoa. Fiorentina mun kaupa Albert næsta sumar verði hann sýknaður í dag.
Gazzetta segir að 90 prósent líkur séu á að dómnum verði áfrýjað, sama í hvora áttina hann falli. Hafa aðilar einn mánuð til að áfrýja. Líklega yrði málið þá á borði dómstóla fram á næsta sumar.