Ange Postecoglou stjóri Tottenham hefur sett Yves Bissouma í bann fyrir það að taka inn hippakrakk. Hann verður ekki með gegn Leicester á mánudag í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Bissouma er öflugur leikmaður Tottenham en hann segir þetta dómgreindarbrest. Notkun á hippakrakki er sögð mikil á meðal knattspyrnumanna og hefur verið ítrekað fjallað um það.
Hippakrakk er hláturgas sem tekið er inn og segja enskir miðlar að það geti hreinlega orðið til þess að fólk láti lífið.
Bissouma birti sjálfur myndir af sér að taka hippakrakk. „Hann verður ekki með á mánudag, við höfum sett hann í tímabundið bann,“ segir Postecoglou.
„Hann þarf að vinna traustið aftur, bæði hjá mér og öllum hópnum. Dyrnar eru opnar fyrir hann, við getum hjálpað honum að átta sig á því að svona ákvarðanir hafa áhrif á allan hópinn.“
Bissouma hefur beðist afsökunar á hegðun sinni. „Ég vil biðjast afsökunar, ég skil vel að þetta getur verið hættulegt. Ég axla ábyrgð sem fótboltamaður og vil vera fyrirmynd,“ segir Bissouma.